Fáum frekar gjaldeyri hjá þeim

Opinber stefna Norður-Kóreu heitir "Juche-hugmyndin" og er þökkuð ástsæla og eilífa forseta Kim Il-sung. Nafnið þýðir "sjálfsþurft" og er nokkurt réttnefni. Hugmyndin krefst skilyrðislauss fullveldis landsins, í bókstafstrúarlegum skilningi orðsins, m.a. að landið sé sjálfu sér nægt um allar nauðsynjar. Nú, það er það auðvitað ekki, en í samræmi við þessa stefnu þá hafa Norður-Kóreumenn átt það til að borga fyrir innfluttar vörur með dollaraseðlum sem þeir prenta sjálfir. Það kalla ég sjálfsbjargarviðleitni. Nú, ef þeir eru ekki lengur á þessum hryðjuverkalista, þá ættum við að geta fengið dollara hjá þeim án þess að óhreinka á okkur hendurnar. Það er að segja, ef við erum ekki komin á listann í staðinn.

Reyndar held ég ekki að margir viti að það eru alveg diplómatísk tengsl milli Íslands og Norður-Kóreu. Ef þið skoðið opinberan fréttavef norður-kóresku ríkisstjórnarinnar, má sjá fréttir af samskiptum ríkjanna sem ég hef ekki séð fréttir um í íslenskum miðlum. Dæmi: Þingforseti Norður-Kóreu sendi Ólafi Ragnari Grímssyni og íslensku þjóðinni hugheilar hamingjuóskir á þjóðhátíðardaginn árið 2000 (*). Ég man ekki eftir að Ólafur hafi fært okkur þá kveðju, en ég var reyndar erlendis þá, þannig að það hefur máske farið framhjá mér. Sams konar kveðja barst árið 2001, með heilla- og hamingjuóskum frá vinaþjóð okkar Norður-Kóreumönnum (*).

Nú, í júní 2004 tók Ólafur Ragnar Grímsson við trúnaðarbréfi Jon In Chan, sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Stokkhólmi. Við það tækifæri sagði Ólafur að Ísland óskaði þess að "styrkja tengslin við Norður-Kóreu og eiga samstarf á alþjóðavettvangi" (*). Ég minnist þess ekki heldur að Íslendingar hafi sýnt Kóreumönnum sérstaka samstöðu nýlega. En kannski að við getum nú byrjað á því með því að fá hjá þeim dollaraseðla. Getum borgað þeim með hvalkjöti frá Kristjáni Loftssyni og 550.000 óseljanlegum gæruskinnum hjá sláturfélagi Sauðárkróks.

Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem hefur átt hlý samskipti við þessa heiðursmenn frá Kóreu. Pak Pong Ju, forsætisráðherra Norður-Kóreu, sendi Geir H. Haarde hamingjuóskir þegar sá síðarnefndi tók við embætti forsætisráðherra Íslands í hittifyrra, og árnaði honum heilla í þessu ábyrgðarfulla starfi. Kannski að þetta sé að koma fram þessa dagana, með norður-kóreskum formerkjum? Á sama tíma fékk Valgerður frænka mín Sverrisdóttir einnig hamingjuóskir frá utanríkisráðherra Norður-Kóreu, með að hafa orðið utanríkisráðherra Íslands (*).

Fyrst það er uppi á borðinu að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða Rússlandi, þá sé ég ekki hvers vegna við ættum ekki líka að skoða þann möguleika að rækta vinskapinn við vinaþjóð forsetans og forsætisráðherrans, Norður-Kóreu.


mbl.is N-Kórea fagnar áfanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjör snilld þessi pistill! Óvenjuleg staða kallar á óvenjulegar hugmyndir. Ég var í Thailandi þegar Thailenski herin keypti 15 eða 20 orustuþotur af Rússum og borguðu með kjúklingum. Það tók nærri 3 ár að vinna á kjúklingabúunum til að koma saman svona geysilegu magnai saman. Enn það tókst. Thaksin var sniðugur forsætisráðherra hér þá það kæmi síðar í ljós að hann stal u.þ.b. tvennum fjárlögum Thailands og það munar um minna...

Algjörlega sammála þér í þessu máli. Vantar að "Brainstorma" svolítið og elta aðrar hugmyndir enn þessar sem fólk virðist sittja fast í.

Kær kveðja..

Óskar Arnórsson, 21.10.2008 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband