29.4.2016 | 12:54
Munurinn á konungi og forseta
Að þetta vald eins manns sé arfleifð frá konungdæminu er rétt hjá Helga, svo langt sem það nær, en það er augljós grundvallarmunur: Forsetinn er kosinn. Meira að segja í beinni kosningu. Hann er þess vegna handhafi umboðs frá fólkinu, sem konungur getur aldrei orðið.
Það mætti ýmsu breyta við forsetaembættið og engin leið hin eina rétta. Það er samt enginn verulegur galli á embættinu sem slíku í stjórnsýslu landsins. Ef mönnum er í nöp við Ólaf Ragnar, þá er við íslenska kjósendur að sakast.
Persónulega fyndist mér eðlilegast að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt og aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þingræði styrkir ekki þingið, heldur veikir það gagnvart framkvæmdarvaldinu.
![]() |
Helgi Hrafn: Vill breytt hlutverk forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2016 | 11:41
Rauður fyrsti maí
Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!
Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.
Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!
Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.
29.4.2016 | 10:52
Víkurkirkjugarður og hótelin
Það er verið að breyta Landssímahúsinu í enn eitt helvítis hótelið. Nú er fyrir slíkur sægur hótela að helmingur þeirra mun fara á hausinn næst þegar kemur kreppa í löndunum sem ferðamennirnir koma frá. Þetta mun ekki endast -- það er vitað, þótt uppbygging skyndigróðans haldi áfram eins og enginn sé morgundagurinn -- bókstaflega.
En Landssímahúsið er spes. Vegna Víkurkirkjugarðs. Grein Þóris Stephensen í Fréttablaðinu í gær var þörf og vel hægt að taka undir flest í henni, eða kannski allt.
Táknrænt séð, þá er greinilega verið að fara yfir einhver mörk, einhver tilfinningaleg mörk, þegar bein forfeðranna fá ekki einu sinni að liggja í friði fyrir hótelfarsóttinni. Hvar er okkar heima, ef ekki þar sem bein forfeðra okkar eru grafin?
En burtséð frá því táknræna, þá er þarna verið að raska sögulegri og menningarlegri sameign okkar. Það er ekki gert í sátt við fólkið. Það er ekki gert af góðum ástæðum eða í smekklegum tilgangi, heldur er tilgangurinn að byggja enn eitt óþurftarhótelið.
Auðvitað á að breyta um stefnu. Það er auðvelt að gera Fógetagarðinn/Víkurkirkjugarð að stað þar sem fólk getur notið sögu og menningar, fortíðar og samtíðar. Ef einhver stjórnmálamaður hefur í sér döngun til þess. Döngun til þess að segja að nú sé komið nóg, einhvers staðar verði þessu að linna, ferðamenn séu fínir en við hin ætlum samt að halda áfram að búa í þessu landi og fá að ráða því, að það verði hægt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2016 | 10:42
Túristabóla
Við erum í miðri bólu ferðamennsku. Hún mun taka endi, eins og allar bólur.
Íslendingar hafa farið í gegn um nógu margar bólur til þess að við eigum að vita það.
Hvað á að gera? Láta reka á reiðanum á meðan peningarnir streyma inn? Á bara að njóta þess meðan það endist?
Því þarf svo að halda til haga að það njóta þessa alls ekki allir meðan það endist. Hækkandi húsnæðisverð þýðir að sumir þurfa að skuldsetja sig miklu meira en þeir ella þyrftu. Aðrir þurfa að borga miklu hærri leigu en gæti verið. Loks eru þeir sem hafa ekki efni á því og þurfa að flytja burt. Ég talaði við eina um daginn sem er flutt til Þorlákshafnar þótt allt hennar líf fari fram hér í Reykjavík. Hún hafði ekki efni á húsnæði nær.
Við vitum það, að þetta mun hrynja. Hver á þá að sofa á öllum þessum hótelum? Það þarf að gera ráðstafanir. Það þarf að gera þær strax. Hefði reyndar mátt gerast fyrir löngu. Nema einhvern langi til að næsta hrun verði sem verst.
Það er ekki nóg að njóta góða veðursins á sumrin. Það þarf líka að afla til vetrarins.
![]() |
Lundarnir að taka yfir borgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2016 | 09:41
Erkiflokkur spillingarinnar
Það er þarft að fá hér enn eina áminninguna um það, skömmu fyrir kosingar, hvað Framsóknarflokkurinn er spilltur. Að hann hefur ekki annan sýnilegan tilgang en að koma sínu eigin fólki á spena hjá ríkinu eða skammta því bestu bitana úr ríkisbúrinu.
Er þessi flokkur séríslenskt fyrirbæri eða þrífast svona gróteskir spillingarflokkar víðar í þeim heimshluta sem kennir sjálfan sig stundum við siðmenninguna?
Hvenær kemur sú kosning, að íslenskir kjósendur þurrki Framsókn út?
(Einhvers staðar verða samt vondir að vera, gæti einhver sagt. Er kannski öruggara að einangra þá í þessum flokki heldur en að tvístra þeim?)
![]() |
Finnur í Panama-skjölunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.4.2016 | 21:28
Málþing um marxisma mið. 27/4
Ég vek athygli á þessu málþingi Rauðs vettvangs nk. miðvikudag (27/4):
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2016 | 20:41
Sveinn Óskar um lágskattasvæði og síðustu ríkisstjórn
Sveinn Óskar Sigurðsson skrifar: Lágskattasvæði samþykkt af Alþingi í mars 2013.
Hér mælir ráðherra Samfylkingarinnar fyrir því að svartur listi yfir lágskattasvæði verði ekki lengur birtur almenningi. Hvers vegna má það vera að ráðherra Samfylkingarinnar geri slíkt? Dæmi hver fyrir sig.
Þetta er athyglisverð grein. Getur verið að kratastjórnin 2009-2013 hafi bara sett þessi lög án þess að hugsa út í afleiðingarnar? Getur einhver bent mér á góða grein þar sem Sveini Óskari er svarað?
(Talandi um það, kjósið frekar Alþýðufylkinguna í haust. Og ef þið verðið á Egilsstöðum eða í nágrenni á miðvikukvöldið kemur, kíkið þá á kynningarfund Alþýðufylkingarinnar þá!)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.4.2016 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2016 | 12:13
Samstaða - um hvað?
Þorvaldur Þorvaldsson svarar grein Ögmundar Jónassonar,
Þetta er ekki eitthvað sem misfórst. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu.
Lesið greinina:
11.4.2016 | 12:46
Panamaskjöl og samsæri
Egill Helgason bloggaði í gær um samsæriskenningar um Panamaskjölin. Hann tekur ekki beint afstöðu til þeirra sjálfur, en sumir sem skrifa athugasemdir tala um þær eins og þær séu hreinræktað kjaftæði. Bara eins og bandaríska leyniþjónustan eða öfl henni tengd mundu aldrei taka þátt í einhverju svona endemi. Og ef Rússar andmæla og koma með aðrar skýringar en vestræn hagsmunaöfl -- þá er það áróður Rússa -- en eins og samsæri, þá mundu hetjur frelsisins aldrei nota áróður. Áróður og samsæri -- það er eitthvað sem hinir nota bara. Ekki við. Ekki fólk eins og við.
Þórarinn Hjartarson skrifar athyglisverða grein um Panamaskjölin á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar. Kíkið á hana:
Panamasprengjan. Til hvers?
7.4.2016 | 11:25
Díalektísk messa á sunnudag
Lífsskoðunarfélagið DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju heldur opna díalektíska messu næstkomandi sunnudag: 10. apríl, klukkan 11:00. Hún verður haldin í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Díalektísk messa fer fram líkt og málfundur: hefst með framsögu og svo taka við almennar umræður sem hafa þann tilgang að allir viðstaddir skilji viðfangsefnið aðeins betur.
Framsögumaður á sunnudaginn verður Þorvaldur Þorvaldsson og umfjöllunarefnið: Hugmyndaþróun og sambúð ólíkra lífsskoðana.Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgengi fyrir fatlaða er ekki auðvelt en þó mögulegt.
DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju er veraldlegt lífsskoðunarfélag sem stofnað var árið 2015. Það er í umsóknarferli til að verða opinberlega skráð hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag.