Munurinn á konungi og forseta

Að þetta vald eins manns sé arfleifð frá konungdæminu er rétt hjá Helga, svo langt sem það nær, en það er augljós grundvallarmunur: Forsetinn er kosinn. Meira að segja í beinni kosningu. Hann er þess vegna handhafi umboðs frá fólkinu, sem konungur getur aldrei orðið.

Það mætti ýmsu breyta við forsetaembættið og engin leið hin eina rétta. Það er samt enginn verulegur galli á embættinu sem slíku í stjórnsýslu landsins. Ef mönnum er í nöp við Ólaf Ragnar, þá er við íslenska kjósendur að sakast.

Persónulega fyndist mér eðlilegast að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt og aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þingræði styrkir ekki þingið, heldur veikir það gagnvart framkvæmdarvaldinu.


mbl.is Helgi Hrafn: Vill breytt hlutverk forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauður fyrsti maí

Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!

Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.

Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!

Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.


Víkurkirkjugarður og hótelin

Það er verið að breyta Landssímahúsinu í enn eitt helvítis hótelið. Nú er fyrir slíkur sægur hótela að helmingur þeirra mun fara á hausinn næst þegar kemur kreppa í löndunum sem ferðamennirnir koma frá. Þetta mun ekki endast -- það er vitað, þótt uppbygging skyndigróðans haldi áfram eins og enginn sé morgundagurinn -- bókstaflega.

En Landssímahúsið er spes. Vegna Víkurkirkjugarðs. Grein Þóris Stephensen í Fréttablaðinu í gær var þörf og vel hægt að taka undir flest í henni, eða kannski allt.

Táknrænt séð, þá er greinilega verið að fara yfir einhver mörk, einhver tilfinningaleg mörk, þegar bein forfeðranna fá ekki einu sinni að liggja í friði fyrir hótelfarsóttinni. Hvar er okkar heima, ef ekki þar sem bein forfeðra okkar eru grafin?

En burtséð frá því táknræna, þá er þarna verið að raska sögulegri og menningarlegri sameign okkar. Það er ekki gert í sátt við fólkið. Það er ekki gert af góðum ástæðum eða í smekklegum tilgangi, heldur er tilgangurinn að byggja enn eitt óþurftarhótelið.

Auðvitað á að breyta um stefnu. Það er auðvelt að gera Fógetagarðinn/Víkurkirkjugarð að stað þar sem fólk getur notið sögu og menningar, fortíðar og samtíðar. Ef einhver stjórnmálamaður hefur í sér döngun til þess. Döngun til þess að segja að nú sé komið nóg, einhvers staðar verði þessu að linna, ferðamenn séu fínir en við hin ætlum samt að halda áfram að búa í þessu landi og fá að ráða því, að það verði hægt.


Túristabóla

Við erum í miðri bólu ferðamennsku. Hún mun taka endi, eins og allar bólur.

Íslendingar hafa farið í gegn um nógu margar bólur til þess að við eigum að vita það.

Hvað á að gera? Láta reka á reiðanum á meðan peningarnir streyma inn? Á bara að njóta þess meðan það endist?

Því þarf svo að halda til haga að það njóta þessa alls ekki allir meðan það endist. Hækkandi húsnæðisverð þýðir að sumir þurfa að skuldsetja sig miklu meira en þeir ella þyrftu. Aðrir þurfa að borga miklu hærri leigu en gæti verið. Loks eru þeir sem hafa ekki efni á því og þurfa að flytja burt. Ég talaði við eina um daginn sem er flutt til Þorlákshafnar þótt allt hennar líf fari fram hér í Reykjavík. Hún hafði ekki efni á húsnæði nær.

Við vitum það, að þetta mun hrynja. Hver á þá að sofa á öllum þessum hótelum? Það þarf að gera ráðstafanir. Það þarf að gera þær strax. Hefði reyndar mátt gerast fyrir löngu. Nema einhvern langi til að næsta hrun verði sem verst.

Það er ekki nóg að njóta góða veðursins á sumrin. Það þarf líka að afla til vetrarins.


mbl.is Lundarnir að taka yfir borgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband