14.4.2013 | 22:33
Alþýðufylkingin hafnar ESB-aðild fortakslaust
Til hvers þarf að verja fullveldið? Til þess að forréttindastéttirnar geti haldið sínu? Nei: Til þess að við getum byggt upp réttlátt og farsælt samfélag án þess að íhlutun sam-evrópsks auðvalds setji okkur stólinn fyrir dyrnar. Við þurfum að verja fullveldið vegna þess að við þurfum að nota það, og þann rétt sem það færir okkur, til þess að leiðrétta grófasta ranglætið sem viðgengst í efnahagskerfinu. ESB-aðild mundi torvelda það til muna, enda er kapítalismi lögmálið í ESB.
Um samskipti Íslands við umheiminn segir stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar þetta:
Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, NATO og öðrum bandalögum heimsvaldasinna. Alþýðufylkingin beitir sér gegn óheftum fjármagnsinnflutningi til landsins og hvers konar skerðingu á fullveldi þjóðarinnar. Einnig styður Alþýðufylkingin baráttu annarra þjóða fyrir eigin fullveldi og gegn hvers konar arðráni og kúgun. Ísland á að beita sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi.
Á stofnfundi Alþýðufylkingarinnar var þessi ályktun samþykkt, til frekari áréttingar á fortakslausri andstöðu við ESB-aðild:
Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu var látið að því liggja að það væri sakleysisleg athugun á því hvað væri í boði í samningaviðræðum. En síðan hefur milljörðum verið eytt í aðlögun að Evrópusambandsaðildinni og mútur í formi styrkja til að afla málinu fylgis. Hvergi er hins vegar talað um að aðild að sambandinu muni kosta tugi milljarða í aðildargjald.Svo virðist sem beðið sé eftir hentugu tækifæri til að afgreiða málið þegar þjóðin hefur fengið upp í kok af áróðri og þá verði notað sem rök að svo miklu hafi verið eytt í aðildarundirbúninginn að ekki megi láta það fara til spillis. Einnig talar Samfylkingin um aðild að ESB eins og um sé að ræða lausn á gjaldmiðilsvanda.Aðild að Evrópusambandinu snýst hins vegar hvorki um gjaldmiðil eða möguleika á styrkjum. Þegar allt kemur til alls snýst hún um sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar á að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína. Kjarninn í regluverki ESB snýst um frjálshyggju og markaðsvæðingu. Allt skal keypt og selt á markaði sem mögulegt er. Þannig vilja auðmenn ESB komast yfir samfélagsleg gæði á Íslandi, auðlindir, vinnuafl og fyrirtæki, eins og í Grikklandi og öðrum ríkjum ESB. Það mun auka enn á ójöfnuð og torvelda okkur sem þjóð að breyta því og vinda ofan af markaðsvæðingunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Virkilega flott grein hjá þér !
Gunnlaugur I., 14.4.2013 kl. 23:21
Ég tek undir þetta með Gunnlaugi, þetta sterk og góð grein, Vésteinn, ég get tekið undir flest hér annað en þetta um úrsögn úr NATO (ennfremur er hugtakið "arðrán" sennilega marxískt hér og stefnan tekin á þjóðnýtingu í stað alls einkarekstrar fyrirtækja, en það er andstætt mínum sjónarmiðum; ýmsir sósíalistar og anarkistar hafa hins vegar þessa skoðun, og þá er fínt að þeir geti fundið ESB-andstöðu sinni farveg hér).
Ég lýsi ánægju minni með ykkar fortakslausu andstöðu við ESB-"aðild". Hér hafa þá vinstri menn, sem vilja viðhalda fullveldi landsins (m.a. til að verjast stórauðvaldi útgerða og annarra fyrirtækja í Evrópusambndinu), tvo valkosti: Regnbogann og Alþýðufylkinguna.
Píratar ná líka til bæði sósíalista og anarkista, en eru hins vegar sofandi á verðinum gagnvart tækifærum stórauðvalds Evrópu sem felst í því að ná Íslandi inn í Evrópusambandið. Píratar tóku þá ófarsælu ákvörðun að vilja halda áfram með Össurarumsóknina, sem hefur íþyngt okkur hér í fjárútlatum, og stríður straumur er út til Brussel núna af sveitarstjórnarmönnum til að skoða "dýrðina" í boði ESB. Þetta sagði mér varaborgarfulltrúi á vinstri vængnum í gær og kemur heim og saman við aðrar upplýsingar.
Andvaraleysi og ótæk stefna pírata gaf mér tilefni til þessara skrifa: Píratar: enn einn ESB-flokkurinn! - Þá er nú Regnboginn ólíkt betri.
Nú er þá líka hægt að fara að benda vinstri mönnum á ykkur.
PS. Skáletraða samþykktin ykkar er verulega góð. Hyggst ég vitna í hana á Fullveldi.blog.is.
Jón Valur Jensson, 15.4.2013 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.