Alþýðufylkingin og húsnæðismálin

Það væri þjóðþrifamál að koma á almennilegu húsnæðisleigukerfi, sem væri réttlátt og öruggt. Stærsta vandamálið í húsnæðislánum er samt ekki spurningin um eign eða leigu, og það er ekki einu sinni verðtryggingin. Vandamálið er að fólk getur ekki komið sér upp heimili án þess að borga okurverð -- enda eru okurvextir fjármálakerfisins innbyggðir í bæði kaup- og leiguverð. Lykillinn að réttlátara húsnæðiskerfi er að fjármálakerfið verði félagsvætt, það er að segja, að það verði rekið sem opinber þjónusta með það markmið að veita fólki og fyrirtækjum nauðsynlega fjármálaþjónustu á hagstæðustu kjörum sem hægt er -- og sé ekki fjármagnað með lánum, heldur með samfélagslegu eiginfé. Verðtrygging væri ekki mikið vandamál ef ekki væru vextir, og vanskil yrðu heldur ekki mikið vandamál, þar sem greiðslubyrðin yrði miklu minni. Það yrði kjarabót sem mundi ekki bara muna mikið um, heldur væri það auk þess framtíðarlausn að félagsvæða fjaÅ•málakerfið.

Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar segir þetta um félagsvæðingu og jöfnuð:

Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.

Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma. Koma þarf á gegnsæju launakerfi í landinu með hóflegum launamun og launatöxtum sem farið er eftir, og banna launaleynd. Þannig verður m.a. hægt að tryggja launajöfnuð kynjanna og koma í veg fyrir auðsupphleðslu og einokun.

Jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu. Komið verði með raunhæfum aðgerðum í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, búsetu og samfélagsstöðu að öðru leyti. Úrskurður í ágreiningsmálum verði að kostnaðarlausu fyrir aðila, þar á meðal fyrir dómstólum, þannig að réttarfar ráðist ekki af fjárhagsstöðu.

Öllum sem ekki geta unnið fyrir sér á almennum vinnumarkaði verði tryggð mannsæmandi framfærsla, án þess að þurfa að kaupa sér lífeyrisréttindi. Undið verði ofan af núverandi lífeyriskerfi sem byggist á sérstakri skattlagningu og söfnun í sjóði sem ætlað er að standa undir lífeyrisgreiðslum með áratuga braski á fjármálamörkuðum, en eru dæmdir til að glatast þar að verulegu leyti. Þess í stað verði komið á samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggir öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað. Reynt verði að skapa öllum skilyrði til að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Starfslok verði sveigjanleg og að nokkru háð vilja hvers og eins.

mbl.is „Ekkert í boði sem ég ræð við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband