17.1.2015 | 00:13
Rétt og rangt vs. leyft og bannað
Almennt séð má segja að það sé rétt að sparka upp fyrir sig og rangt að sparka niður fyrir sig. Maður níðir ekki minni máttar. Er það eitthvað flókið?
Er það ekki skrítið, hvað margir virðast eiga erfitt með að greina á milli þess sem er löglegt eða ólöglegt annars vegar, og þess sem er rétt eða rangt hins vegar? Þess sem menn hafa eða hafa ekki leyfi til, og þess sem er rétt og rangt?
Það væri löglegt en samt rangt ef ég boðaði að afnema bæri mannréttindi í landinu. En ef ég kallaði konung Saúdi-Arabíu holdgerving mannréttindabrota, þá væri það lögbrot, vegna þess að það er bannað að smána erlenda þjóðhöfðingja ... en væri það samt ekki satt?
Mér finnst ekkert vanta mosku í Reykjavík. En múslimar hafa samt leyfi til að byggja hana. Ég ætla ekki að reyna að svipta þá þeim rétti, ekki frekar en að ég skipti mér af því þegar að byggja enn eina kirkjuna. Það er jú trúfrelsi, er það ekki?
Er eitthvað athugavert við íslam sem hugmyndafræði? Já, svo sannarlega. Er þar með réttlætanlegt að drulla almennt yfir fólk sem kemur frá samfélögum þar sem íslam er ríkjandi trúarbragð, sk. múslima? Nei! Það er ekki í lagi að mismuna minni máttar þjóðfélagshópum, hvað þá ofsækja þá!
Ég hef ýmislegt á móti íslam sem slíku. Ég gæti orðað það á grófari hátt. En ég skal glaður segja hvers vegna ég tek ekki undir kór múslimahataranna: Það er vegna þess að múslimar eru ekki illmenni og óþokkar, það er bæði ósanngjarnt, ranglátt og ljótt, og líka skaðlegt fyrir okkur hin, að leggja þá í einelti eða beita þá, og þess vegna vil ég ekki taka þátt í því. Á að meðhöndla heiðarlega múslima öðruvísi en heiðarlega ómúslima? Á að meðhöndla óheiðarlega múslima öðruvísi en óheiðarlega ómúslima?
Þegar fólk sem ræður yfir fjölmiðli ákveður að nota hann til að hæðast að minni máttar eða smána hópa sem eiga undir högg að sækja, þá er það illa gert. Og til að tregt fólk misskilji mig ekki, þá réttlætir það ekki fjöldamorð. En það er samt illa gert. Það er engin réttlæting að segja að "teiknararnir á Charlie Hebdo hafi dáið fyrir það" -- það er samt illa gert. Þeir notuðu rétt, sem þeir höfðu, til ills. Þeir dóu fyrir vondan málstað. Því miður.
Það er hægt, að breyttu breytanda, að segja svipað um Jótlandspóstinn og Múhameðsteikningarnar. Múhameðsteikningarnar voru ekki fyndnar (ju, reyndar þessi sem sýndi ungan innflytjanda sem heitir Múhameð, og var búinn að skrifa á krítartöflu, á arabísku, að Jótlandspóturinn væri próvókerandi afturhaldssnepill).
Að þetta hræðilega fjöldamorð sé einhver "árás á tjáningarfrelsið" er auk þess bull. Sko: Ef ég kalla Jón nágranna fábjána, og hann gefur mér á kjaftinn í staðinn, er hann þá að skerða tjáningarfrelsi mitt? Nei, það er líkamsárás. Það væri skerðing á tjáningarfrelsi ef Jón nágranni fengi Alþingi til að samþykkja lög sem bönnuðu mér að kalla hann fábjána.
Skop í fattlausum heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Umræða um þetta mál er af hinu góða. Þessi voðaverk réttlæta ekki ofsóknir gegn löghlýðnum múslimum á vesturlöndum. Frjálslynt fólk ætti að geta verið sammála um það. En það er munur á ofsóknum og umræðu. Ég skil hvað þú ert að fara, en get ekki verið sammála því að árásin hafi ekki verið árás á tjáningarfrelsið. Árásirnar voru líka glæpaverk. Þetta er ekki spurning um annað hvort eða.
Ef það að myrða þá sem gagnrýna og ögra með því að nýta sér tjáningafrelsi sitt er ekki árás á tjáningafrelsið, hvað er þá árás á tjáningafrelsið?
Öfgamenn, hvort sem það er múslimar eða aðrir, nota ofbeldi til að hræða og þagga niður í fólki. Það er gömul saga.
Wilhelm Emilsson, 17.1.2015 kl. 01:28
Ég skil alveg hvað menn eru að hugsa þegar þeir segja að það sé ógn við tjáningarfrelsið að hefna svona fyrir móðganir með ofbeldi. Það er samt ekki tjáningarfrelsið sem það snýst um; á meðan ríkið virðir tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, þá er tjáningarfrelsi. Því geta þingmenn breytt, ekki bófar. Enda beindist reiðin í Múhameðsteikningamálinu ekki bara gegn Jótlandspóstinum, heldur aðallega gegn Danmörku sem ríki og þjóð, fyrir að "leyfa" (þ.e.a.s. banna ekki) skopmyndir af Múhameð.
Það er svo annað mál, að eins og í íslenskum lögum, þá er guðlast formlega bannað í dönskum lögum. En það hefur fallið dómur um að teikning af Múhameð sé ekki guðlast, enda var hann ekki guð, og þess vegna ná þau lög ekki yfir Jótlandspóstinn.
Vésteinn Valgarðsson, 17.1.2015 kl. 13:05
Takk fyrir svarið, Vésteinn.
Áhugaverður punktur þarna með Jótlandspóstinn.
Vissulega er mál- og tjáningafrelsi, þar sem landslög leyfa það. Um það erum við sammála. En aðilar innan samfélags, þar á meðal stjórnmálamenn, geta vegið að því frelsi með ýmsum hætti. Grófustu dæmin eru þegar fólk er myrt fyrir að tjá sig. Það er að sjálfsögðu glæpur, en það er líka árás á mál- og tjáningafrelsi, að mati ansi margra. Bræðurnir sem myrtu fólkið á Charlie Hedbo skrifstofunum sögðu, „Nú hefur spámannsins verið hefnt!" Skilaboðin til þeirra sem nýta mál- og tjáningafrelsi sitt til að gagnrýna og gera gys að íslam geta ekki verið skýrari.
Það var ekki af ástæðulausu að flest blöð og tímarit kusu að birta ekki teikningarnar úr Jyllands-posten. Það var ekki bara af tillitssemi. Það var einnig, og kannski aðallega, af ótta við afleiðingarnar.
Wilhelm Emilsson, 18.1.2015 kl. 05:53
Fólk mundi ekki segja að einkaeignarréttinum væri ógnað í þjóðfélaginu, þótt það væri framið rán einhvers staðar.
Ég hef aldrei afsakað eða réttlætt árásina á Charlie Hebdo og ekki gert lítið úr alvarleika hennar. Og auðvitað hræðir þessi árás einhverja frá því að prenta eitthvað. Til þess er hún væntanlega gerð. En mér finnst skoðanamótandi öflum á Vesturlöndum hafa verið mjög mislagðar hendur í umræðunni, og beint henni inn á ógæfulegar brautir.
Vésteinn Valgarðsson, 18.1.2015 kl. 12:16
Takk fyrir svarið, Vésteinn.
Við erum næstum því orðnir sammála og þá er kannski best að hætta :) Það væri ekkert gaman á Moggablogginu ef allir væru sammála. Ég sé þetta fyrir mér. Jón Valur viðurkennir að kaþólska kirkjan eigi við alvarleg vandamál að stríða. Mofi viðurkennir þróunarkenninguna og að helvíti sé til, samkvæmt Bíblíunni. Páll Vilhjálmsson viðurkennir að ESB sé ekki alvont, o.s.frv. Nei, þetta væri ömurlegt.
Reyndar finnst mér eignarréttinum ógnað þegar rán er framið--því fleiri rán því meiri ógn--en ég er kannski bara avona mikill kapítalisti!
Wilhelm Emilsson, 19.1.2015 kl. 04:16
Þegar þú orðar þetta svona, fer um mig blanda af hrolli og flissi. Það yrði þá fokið í flest skjól. En þessi athugasemdahali má alveg kallast fullskrifaður mín vegna. Takk fyrir spjallið, þið sem tókuð þátt.
Vésteinn Valgarðsson, 19.1.2015 kl. 11:29
Takk sömuleiðis :)
Wilhelm Emilsson, 19.1.2015 kl. 12:27
"Þið" eru reyndar ekki aðrir en þú, Wilhelms, og ég sjálfur, þannig að "takk Wilhelm" ætti að standa þarna.
Vésteinn Valgarðsson, 19.1.2015 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.