17.1.2015 | 17:25
Gáfnaljós
Þeir eru glámskyggnir, þessir brennumenn, að hefna sín svona.
Þegar ég fór til Egyptalands 2008 talaði ég við þónokkra Egypta sem var nánast létt að ég væri Íslendingur en ekki Dani. Þeim var nefnilega illa við Dani, vildu t.d. ekki versla við þá, vegna Múhameðsteikninga Jótlandspóstsins. Líbanons-Daninn Ahmed Akkari hafði þá nokkru áður farið um mörg múslimalönd og sýnt þar myndir úr franskri svína-eftirhermukeppni, og sagt að svona sýndu Danir spámanninn.
Einn sem við töluðum mikið við var blaðamaður. Hann var ekkert að æsa sig út af Múhameðsteikningunum, hann var samt sanntrúaður múslimi en kvaðst vera vestrænt sinnaður. Hann tók þó fram að hann hefði ekki þetta vestræna umburðarlyndi fyrir kynvillingum.
Hann kúgaðist um leið og hann sagði orðið, "kynvillingur".
Þetta var skondinn náungi og gat sagt okkur frá mörgu. Hann sagði mér t.d. að í Egyptlandi væri opinber ritskoðun á fréttum, en hún næði bara til frétta um herinn. Það mætti ekkert birta um herinn nema fréttin hefði verið samþykkt af ritskoðunarstofu hersins.
Eins og ég sagði, þá var hann slakur út af Múhameðsteikningum Jótlandspóstsins, en þær bárust auðvitað í tal. Það þurfti ekkert að útskýra fyrir honum að það væri prentfrelsi í Danmörku. En ég sagði honum frá fölsuninni hans Akkaris, hvernig málið hefði verið afflutt til þess að æsa múginn upp. Hann varð alveg forviða, fannst þetta algjört hneyksli.
Þannig að ég spurði hann auðvitað hvort hann vildi ekki -- úr því að hann væri blaðamaður -- ekki skrifa grein um þessa. Ég bauðst til þess að finna öll gögn og heimildir fyrir hann.
Félaginn strauk sér um hökuna. Sagði að hann vildi það ekki.
Það er ekki ritskoðun. Hann vildi bara ekki skrifa um þetta.
Kveikt í kirkjum í Níger | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.