Styðjum sýrlenska herinn

Það er í besta falli óskhyggja hjá BNA að ætla að þjálfa "hófsama uppreisnarmenn" -- Joe Biden lýsti því yfir ekki alls fyrir löngu að sú strategía hefði mislukkast, enda væru þessir "hófsömu uppreisnarmenn" ekki til. Vopnin sem BNA, Tyrkir og Flóaarabar hafa verið að senda þeim hafa endað, á einhvern óskiljanlegan hátt, í höndunum á IS.

Ríkisstjórn og her Sýrlands, undir Assad, er eina aflið sem er líklegt til að geta brotið þessa þorpara á bak aftur. Eina aflið. Assad-stjórnin hélt þeim í skefjum þangað til vestræn öfl og austrænir leppar þeirra fóru að mylja undir "hófsöm uppreisnaröfl", þ.e.a.s. senda herskáum íslamistum peninga, vopn og njósnaupplýsingar. Gripu tækifærið og hæjökkuðu kröfufundum heiðarlegra, lýðræðissinnaðra heimamanna um umbætur.

Ríkisstjórn og her Íraks, undir Saddam, gegndi sama hlutverki þar. Íraksstríðið ruddi brautina fyrir borgarastríð þar og ömurleg örlög fyrir heilt land. Ömurleg örlög, þar sem ungir menn eru til í að hlusta á boðskap um dýrð í stríði, um píslarvætti fyrir málstaðinn.

Það þarf að styðja sýrlenska herinn. Hann er lykillinn að því að klekkja á IS.

 

Það er í raun ekki flókið. Þannig að það blasir við að spyrja af hverju það sé ekki gert. Jú, BNA vill Assad burt. Ekki af því að það skorti á lýðræði eða mannréttindi hjá honum - sjáið bara Saúdi-Arabíu, nú eða bara Bandaríkin sjálf. Nei, vegna þess að hann gegnir þeim ekki. Hann er þeim óþægur ljár í þúfu. Þjóðlega borgarastéttin í Sýrlandi er hans bakhjarl. Þannig að fyrst magna BNA þetta skrímsli, IS, gegn honum, og njóta til þess stuðnings Tyrkja, Saúda og Flóaarba. Missa því næst stjórn á því, að því er virðist, a.m.k. í Írak, svo þeir hefja loftárásir sem virðast ekki draga að marki úr IS. En IS heldur samt áfram að gagnast þeim með því að berjast gegn Assad, og líka óbeint, því nú segir Obama: Tja, IS er aðalógnin núna, Assad er hindrun í veginum fyrir því að það verði almennilega barist gegn þeim, þess vegna þarf að að ryðja Assad úr vegi. Þá fyrst getur Kaninn komið og sýnt umheiminum hvernig á að berja niður uppreisnarmenn. Eins og þeir hafa gert í Afganistan. (Hér er ég að tala í kaldhæðni, ef fólk skilur það ekki: Þeim hefur nefnilega ekki tekist að berja niður talibana í Afganistan.)

BNA ætla sér að ryðja Assad og Baath-flokknum úr vegi, til þess er þessi leikur gerður, og þeim er alveg sama hvað margir blaðamenn verða skornir á háls eða kristnir Sýrlendingar eða jasídar eða bara saklausir múslimar eða einhverjir aðrir strádrepnir, til að svo megi verða. Tilgangurinn helgar meðalið.

Stuðningur við Assad - ekki einhver platónskur stuðningur í formi einhverra ályktana, heldur pólitískur og hernaðarlegur stuðningur við Assad og sýrlenska herinn - það er leiðin til þess að brjóta IS á bak aftur. Líklega eina leiðin.


mbl.is Vill landhernað gegn Ríki íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir pistilinn, Vélsteinn. Líturðu á Baath flokkinn sem sósíalískan flokk? Slagorð hans í fyrri tíð var „Eining, frelsi, sósíalismi".

Wilhelm Emilsson, 20.1.2015 kl. 04:59

2 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Hann er ekki sósíalískur, en eins og svo margir aðrir hefur hann reynt að baða sig í ljómanum af sósíalismanum. Baath-flokkurinn fylgir sam-arabískri þjóðernisstefnu.

Vésteinn Valgarðsson, 20.1.2015 kl. 10:13

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Vésteinn. Sósíalisminn er margslunginn, eins og við vitum, og ljóminn af honum er misbjartur og stundum er sósíalisminn bara algert myrkur, sósíalismi Stalíns og kumpána, til dæmis.

Wilhelm Emilsson, 20.1.2015 kl. 20:27

4 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Sósíalisminn er besta efnahagskerfi sem menn hafa fundið upp til þessa. Það breytist ekki þótt mönnum hafi stundum mistekist eða gert ranga hluti, jafnvel framið glæpi í nafni hans. Og fyrir utan það, þá breytist það alls ekki þótt auðvald og afturhald allra landa dæli út lygum og áróðri um sósíalista. En það er önnur saga.

Vésteinn Valgarðsson, 20.1.2015 kl. 22:44

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Hvar og hvenær hefur sósíalískt hagkerfi virkað best að þínu mati? 

Wilhelm Emilsson, 21.1.2015 kl. 05:25

6 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ja, ég get nefnt fimm ára áætlanir Sovétríkjanna.

Vésteinn Valgarðsson, 21.1.2015 kl. 11:09

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Þar með talið fimm ára áætlanir þegar Stalín var við völd væntanlega?

Wilhelm Emilsson, 21.1.2015 kl. 19:02

8 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Aðallega þær. Þá iðnvæddust Sovétríkin í leifturhraða. Sú iðnvæðing stóð undir mun betri lífskjötum og öruggari afkomu en verið hafði áður.

Vésteinn Valgarðsson, 21.1.2015 kl. 21:19

9 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Vésteinn. Ég efast ekki um að þú þekkir þær mannfórnir sem þessi leifturiðnvæðing kostaði, þannig að ég kann að meta hreinskilni þína.

Wilhelm Emilsson, 21.1.2015 kl. 22:59

10 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég kannast við þær fórnir. Og ég kannast líka við makalausan áróður þar sem sumt er satt, sumt er logið, sumt er ýkt, sumt slitið úr samhengi og Sovétmönnum er kennt um sumt sem er ekki þeirra sök.

Ef Sovétríkin hefðu ekki iðnvæðst og vígvæðst á 4. áratugnum á þeim hraða sem þau gerðu, hvernig heldurðu þá að 2. heimsstyrjöldin hefði farið?

Vésteinn Valgarðsson, 21.1.2015 kl. 23:14

11 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Hvernig heimsstyrjöldin síðari hefði farið er fyrir utan það sem við erum að spjalla um. Þar að auki réttlætir útkoma hennar ekki neitt, ef mönnum finnst að það þurfi að réttlæta fimm ára áætlanir Sovétríkjanna í stjórnartíð Stalíns.

Það þarf engan áróður, lygar, eða ýkjur til að hafa efasemdir um fimm ára áætlanirnir á því tímabili sem við erum að tala um. Sagnfræði nægir til þess. Hér er lítið dæmi. Eystrasalts-Hvítahafs skipaskurðurinn var grafinn af 170,000 föngum í nauðungarvinnu. 25,000 þeirra dóu á einu og hálfu ári, samkvæmt sagnfræðingum. Opinberu tölurnar eru reyndar 126,000 og 12,000 látnir. Jafnvel þó maður trú opinberum tölum, sem ég held að fæstir geri, þá lítur þetta nú ekki vel út. Og þetta er bara eitt "lítið" dæmi.

Heimild: Simon Sebag Montefiore, Stalin: The Court of the Red Tsar (bls.120)

Heimild um opinberar tölur: Wikipedia, White Sea-Baltic Canal. Vitnað er í rússneskar heimildir á síðunni.

Wilhelm Emilsson, 22.1.2015 kl. 06:37

12 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég er ekkert að "réttlæta" fimm ára áætlanirnar. Ég er að segja að þær komu Sovétríkjunum af þróunarstigi síðmiðalda og upp í geiminn á bara þrjátíu árum, og það þótt eyðilegging WWII hafi orðið í millitíðinni.

Ég kem ekkert af fjöllum með þessa hvítahafsskurðsfanga. En fangar hafa alltaf verið látnir vinna í Rússlandi, þeir voru látnir vinna á keisaratímanum og þeir eru ennþá látnir vinna. Það er ekkert sér-stalínskt við það. Og fangavinna var ekki ómissandi í vexti Sovétríkjanna. Og ég tek ekki mark á Montefiore.

Vésteinn Valgarðsson, 22.1.2015 kl. 09:13

13 Smámynd: Wilhelm Emilsson

“Sóslíalisminn er besta efnahagskerfi sem menn hafa fundið upp til þessa,” segirðu og dæmi um það eru fimm ára áætlanirnar í stjórnartíð Stalíns að þínu mati.

Ég gef mér það að þú komir ekki af fjöllum um nauðungarvinnu fanga og ýmislegt annað sem gekk á í Sovétríkjunum. Þetta er jú ansi dramatísk saga. “En fangar hafa alltaf verið látnir vinna í Rússlandi,” skrifarðu Gott og vel. En það er munur á því að láta fanga vinna og að stór hluti þeirra lifir ekki af vinnuna. Þú vitnar í keisaratímann og að þá hafi fangar verið látnir vinna. Átti ekki byltingin að skapa réttlátt þjóðfélag? Er þetta “litla” dæmi um skipaskurðinn ekki dæmi um að “besta efnahagskerfi sem menn hafa fundið upp” var byggt á mannfórnum sem samræmast ekki hinum göfugu hugsjónum sósíalismans?

 

Þú tekur ekki mark á Montefiore. Er einhver sérstök ástæða fyrir því? Mælir þú með umfjöllun um Stalín og Sovétríkin sem er meira mark á takandi? Kunningi minn er marxískur sagnfræðingur og hann benti mér á bók sósíalistans Isaacs Deutschers um Stalín, sem ég hafði gagn og gaman af. En sagnfræðingurinn benti á að sú bók er orðin ansi gömul og eftir að gagnsöfn voru opnuð í Rússlandi hefur ýmislegt nýtt komið fram, sem sagnfræðingar eins og Montefiore, Robert Service og Stephen Kotkin hafa nýtt sér. 

Wilhelm Emilsson, 23.1.2015 kl. 07:06

14 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég tek ekki mark á sagnfræðingum sem leggja upp með það verkefni að sverta viðfangsefni sitt eins mikið og þeir geta. Ég hef ekki lesið margar bækur um Stalín, en ég hef líka heyrt að bók Deutschers sé góð - og það ber að undirstrika það vegna þess að Deutscher var trotskíisti og því alls enginn aðdáandi Stalíns. Ef það á að fjalla alvarlega um Stalín þá nenni ég hvorki glansmyndum né grýlusögum, ég vil bara að umfjöllunin sé sanngjörn og fari rétt með. Það er því míður ótrúlega sjaldgæft nú til dags. Það er hinn raunverulegi pólitíski rétttrúnaður nútímans, að minnast ekki á sósíalista, kommúnista, hugmyndafræðinga þeirra eða leiðtoga, án þess að níða af þeim skóinn. Sem ég segi: Ég les krítík með ánægju, ég veit vel að það fór margt úrskeiðis á valdatíma Stalíns og er ekkert viðkvæmur fyrir að fjalla um það, en það er ekki að marka krítík sem er ekki sanngjörn. Ég er ekki að segja að menn megi ekki hafa skoðanir, öðru nær, bara að þeir séu sanngjarnir.

Vésteinn Valgarðsson, 23.1.2015 kl. 08:48

15 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Já, ég get mælt með bók Deutschers. Hann var trotskíisti, eins og þú bendir á, en líka húmanisti og hann fjallar um Stalín af meiri hlutlægni en ég átti von á. Hann er auk þess lipur penni.

En í nýrri bókum um viðfangsefnið er ógrynni af upplýsingum úr rússneskum skjalasöfnum sem skerpa myndina af Stalín, samstarfsmönnum, vinum og óvinum hans, sem flestir áttu það sameignlegt að lifa ekki af kynni sín af stálmanninum. En Stalín gat líka verið sjarmerandi þegar hann vildi svo við hafa, hafði ágætis kímnigáfu, þó hún væri í svartari kantinum, var góðum gáfum gæddur, slyngur með afbrigðum, bókhneigður og góður við Svetlönu dóttur sína. 

Wilhelm Emilsson, 23.1.2015 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband