20.1.2015 | 17:07
Niður bratta brekku olíutindsins
Olíulindir heimsins eru takmörkuð auðlind, og vinnsla á þekktum olíulindum er fyrir löngu komin fram úr fundi á nýjum lindum. Olíuframleiðsla fylgir meðalkúrfu, og toppinum var náð fyrir næstum tíu árum síðan. Frá því þá höfum við, þökk sé tækni og háu verði, verið á nokkurs koanr hásléttu olíuframleiðslu. Þar verðum við ekki til frambúðar. Og þetta lága verð, sem er þvingað fram af pólitískum ástæðum, mun svo sannarlega ekki haldast. Það er því skammgóður vermir, ef fólk heldur að það sé hægt að byggja eitthvað á því, sem á að standa á morgun.
Að segja að "því hafi verið spáð" um síðustu aldamót, að verðið héldist lágt er misvísandi. Svo ekki sé meira sagt. Hverju hefur ekki verið spáð? Jarðfræðingurinn Hubbert setti normalkúrfukenningu sína ("klukku Hubberts", þar sem kúrfan líkist kirkjuklukku í laginu) fram fyrir áratugum og sagði fyrir um olíutindinn. Sú kenning hefur verið betur og betur staðfest eftir því sem meiri gögn hafa komið fram.
Verðið mun fara upp aftur. Og fyrr en varir mun það haldast þar til frambúðar, vegna þess að það verður erfiðara og erfiðara að auka framboðið, en eftirspurnin mun ekki minnka mikið í bráð.
Það er tómt mál að tala um, að "ætla" bara að finna stórar olíulindir. Þær finnast nú þegar hægar heldur en þær klárast. Það hallar nú þegar undan fæti.
Ábyrgir stjórnmálamenn mundu núna taka í neyðarhemlana á hagkerfum heimsins, til þess að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa og treina þá olíu sem er eftir, eins og mögulegt er.
Ég man eftir umræðu um þessi mál fyrir nokkrum árum. Þegar framkvæmdastjóri einhvers af stóru íslensku olíufélögunum var spurður hvort landið ætti nægar birgðir af olíu ef alvarleg snurða hlypi á þráðinn. Hann hélt nú ekki að þess þyrfti. Íslendingar gætu alltaf keypt olíu á frjálsum markaði þegar þeir þyrftu.
Honum yfirsást auðvitað að olía er ekki eins og hver önnur lúxusvara. Ef alvarleg snurða hleypur á þráðinn, þá verður hún ein af fyrstu vörunum sem sterk (vopnuð) hagsmunaöfl fara að hlutast um. Þá verður enginn "frjáls markaður" með hana. Það verður barist um hana. Menn eru reyndar byrjaðir á því.
Núverandi olíuverð útsöluverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.