19.10.2016 | 10:28
Hverjum treystir þú?
Auglýsingaherferð VG "Hverjum treystir þú?" byggist greinilega á einhverri markaðskönnun á trausti og kjörþokka. Hún er ómálefnaleg, eins og reyndar auglýsingaherferðir VG hafa oft verið áður. Nægir þar að rifja upp slagorðið, ef slagorð skyldi kalla: "VG - vegur til framtíðar" sem flokkurinn var með 2007 og sá ekki ástæðu til að endurskoða, frekar en nokkuð annað, fyrir kosningarnar 2009, þótt efnahagshrun hefði orðið í millitíðinni.
"Við eigum bara að minna á það", sagði Katrín Jakobsdóttir þá, "að við berum ekki ábyrgð á hruninu!" Forystunni þótti Hrunið ekki vera ástæða til að endurskoða stefnu flokksins, sem gekk til kosninga sem pólitísk jómfrú.
Pólitíska jómfrú er samt ekki beint hægt að kalla það VG sem var í ríkisstjórn 2009-2013. Listi vonbrigða og svika er svo langur að ég óttast helst að hafa gleymt einhverju stórmálinu, það var ESB-umsóknin, IceSave, Magma-málið, einkavæðing bankanna. Það var úrræðaleysi í húsnæðismálum, eða réttara sagt bankarnir látnir um að útfæra húsnæðisstefnuna, sem VG gat þá þvegið hendur sínar af. Það var áframhaldandi stóriðjustefna. Það var efnahagsstefnan, mótuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég reifaði þetta allt saman árið 2012 þegar ég sagði mig úr VG og fór að undirbúa stofnun Alþýðufylkingarinnar.
"En dokaðu við," segið þið kannski, "það var Steingrímur sem bar ábyrgð á þessu öllu!" Hann bar kannski mesta ábyrgð sem formaður flokksins, en Katrín var varaformaður og hefur sjálf margsagt að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli þeirra Steingríms. Ekki hnífurinn á milli. Og meirihluti flokksins, sjúkur af tækifærisstefnu og meðvirkni, tók fullan þátt. Ég man meira að segja að aðstoðarmenn ráðherra VG voru farnir að skrifa greinar þar sem þeir réðust á ESB-andstöðuna, sjálfir flæktir inn í svikin upp á herðablöð.
Fylgisaukningin bendir til þess að þessi ný-stalíníska persónudýrkun: innihaldslaust slagorðaskrum og brosandi andlit - virki kannski. Það er svosem ekkert við því að segja. En þó vil ég segja þetta: Ég treysti ekki Vinstri-grænum. Ég treysti ekki þeim sem hafa svikið sína eigin stefnuskrá og sína eigin kjósendur í heilt kjörtímabil. Ég treysti ekki þeim sem hafa látið flokkseigendafélag VG draga sig á asnaeyrunum, gera það enn og eru staðráðnir í að gera það líka í framtíðinni.
Þegar ég sagði mig úr VG árið 2012 skrifaði ég m.a. þetta:
Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.
Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.
Þennan flokk sárvantar ekki lengur, hann er til. Hann heitir Alþýðufylkingin. Það ber ekki að skilja þessa færslu svo, að baráttan okkar snúist eitthvað sérstaklega um VG. Hún gerir það ekki. En fólk þarf að vita hvers vegna við stofnuðum Alþýðufylkinguna. Það var vegna þess að VG voru (og eru) rúin trúverðugleika eftir síðasta kjörtímabil og hafa ekki einu sinni reynt að afsaka sig heldur stefna ótrauð í sama farið. Verði þeim að góðu sem kýs þau.
Aukið fylgi Vinstri grænna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir allt sem þú segir. Ég tel mig þó hægra megin við miðju. Hér vantar sterkt vinstra aðhaldsafl með markmið og hugsjónir fyrir bættum kjörum litla mannsins. Ég fæ nettan hroll við að sjá Svandísi Svavarsdóttur og Steingrím J. á leið á þing eina ferðina enn. Skammtímaminni vinstrimanna virðist rosalega lélegt að ætla að gefa sömu karríerpólitikusunum traust eftir allt sem þeir hafa svikið og klúðrað.
Með Kötu í forsvari er þetta klár krataflokkur opinn í alla enda. Ég hef enn ekki fest fingur á stefnu þessa flokks. Lýðskrumið er himinhröpandi og flestir sjá í gegnum það, en með RUV sem prívat málsvara og áróðursapparat er ekki von á öðru en að fólk láti blekkjast. þ
Nú á að birta símtal Geirs og Davíðs og þyrla upp skít og sleppa því að nefna eftirmála þess, vittu til.
Þessir 75 milljarðar voru lánaðir gegn veði í Danska bankanum FÍH þegar engum var ljóst hvernig Kaupþing hafði kokkað bækur sínar og áttu um 90% í sjálfum sér.
Þetta veð var svo innleyst af Má og Steingrími fyrir 103 milljarða, sem einhver hefði kallað goðar heimtur. Vogunarsjóðirnir sem keyptu veðið af seðlabankanum seldu hinsvegar bankann strax aftur á 1200 milljarða. Menn mega svo spyrja sig hver ætti stærsta skaðann í því máli öllu. En nei, Steingrím allsherjarráðherra endilega í fjármálaráðuneytið aftur. Vinstrimenn hljöta að vera fífl upp til hópa.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2016 kl. 14:54
Þorkell Sigurjónsson, 19.10.2016 kl. 16:44
Ekki hafa vinstriflokkarnir komið með neina konkret lausn á málum aldraðra og lofa engu þar um. Skattahækkanir og frekari skerðing er það sem maður rýnir út úr orðum þeirra. Hjá þeim er eilíf kreppa og ef of vel gengur þá koma þeir og sjá til þess að kreppan verði. Þeir þrífast best þar og eru ánægðastir þar.
Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn með úrbætur á dagskrá og þeir hafa sett þær skýrt fram.
Tengi hér á blogg Halldórs Jónssonar, sem gerði þessu skil í gær.
http://halldorjonsson.blog.is/blog/halldorjonsson/entry/2182476/
Afritaðu þessa slóð og settu í vafrarann. Þetta er allt gerlegt og rökstutt og yfirlýst stefna. Kjör ellilífeyrisþega munu í sumum tilfellum batna um 80-100%.
Væri ég í þínum sporum Keli, þá myndi ég ekki velkjast í vafa um hvað ég kysi.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2016 kl. 18:15
Ótrúlegt nokk, þá sýnist mér Alþýðufylkingin og Sjálfstæðisflokkur standa næst hvað varðar málefnin. Óska þeim bara velfarnaðar og vona að þeir vaxi nóg til að geta myndað meirihluta með sjálfstæðisflokki. Þar væri gott jafnvægi.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2016 kl. 18:19
Leiðrétting á kjaraskerðingum aldraðra og öryrkja er reyndar fyrsta mál á dagskrá Alþýðufylkingarinnar ef hún kemst til áhrifa, ásamt því að stöðva sölu ríkiseigna og veita meira fé í Landspítalann. Þannig að Keli kýs kannski bara Alþýðufylkinguna.
Vésteinn Valgarðsson, 19.10.2016 kl. 20:27
Sæll Vésteinn.
Hlustaði á dagskrárkynningu RÚV
laust eftir kl. 23:00 og
sýnist mér að varlegt sé að treysta
því eignarfalli sem RÚV telur að
orðið fylking hafi, - a.m.k. í ykkar tilfelli.
Ég treysti því ekki! (rétt að fá 15 mínútur aukalega
í skaða- og miskabætur svona til að byrja með!)
Húsari. (IP-tala skráð) 19.10.2016 kl. 23:45
Siðuhafi skrifar: "Fylgisaukningin bendir til þess að þessi ný-stalíníska persónudýrkun: innihaldslaust slagorðaskrum og brosandi andlit - virki kannski."
Það er svolítið fyndið að heyra Alþýðufylkinguna gagnrýna VG fyrir "ný-Stalínisma" þegar við minnumst þess að stalíníski frasinn "Sósíalismi í einu sveitarfélagi" er áberandi slagorð Alþýðufylkingarinnar. Sjá hér: http://althydufylkingin.blogspot.ca/p/drog-stefnuskra-alyufylkingarinnar.html
Þeir sem vita örlítið um sögu sósíalismans vita að þetta er tilvitnun í slagorð Stalíns "Sósíalismi í einu landi".
Wilhelm Emilsson, 20.10.2016 kl. 06:29
Wilhelm, það gleður mig að þú sjáir það fyndna í þessu, því það geri ég líka, en líklega eru margir sem hafa ekki fattað tenginguna. Að mínu mati felur "stalínismi" m.a. í sér (a) persónudýrkun og (b) að gagnrýni sé ekki rædd efnislega heldur frekar reynt að eyða henni að fela hana. Í kosningaáróðri VG er slegið upp myndum af brosandi fólki og spurt "Hverjum treystir þú?" -- það dregur meira dám af persónudýrkun heldur en málefnalegum boðskap, sem er líka skiljanlegt miðað við þau miklu vonbrigði sem síðasta kjörtímabil olli mörgum stuðningsmönnum VG. En sem ég segi, þá virðist þetta virka. Hvort sem manni líkar betur eða verr. Með gagnrýnina: Ég starfaði innan VG í þrjú og hálft ár, 2009-2012. Allan þann tíma tók ég þátt í harðri en málefnalegri gagnrýni innanflokks, sem var kæfð í nefndum eða breitt yfir hana eða í besta falli. Það var sama hvort það var ESB, IceSave, Magma, AGS eða hvað, það var allt leggjandi í sölurnar fyrir stjórnarsamstarfið. Þetta voru lærdómsrík ár. Ég lærði að flokkseigendafélag VG snýst um allt annað heldur en dáfögur orðin í stefnuskránni. Ég lærði að ef maður ætlaði sér að berjast fyrir hagsmunum alþýðunnar í landinu, væri VG ekki vettvangur til þess. Því miður. Ég hefði ekki lagt út í þann barning að stofna nýjan flokk frá grunni, ef eitthvað hefði verið upp á VG púkkandi.
Slagorðið "Sósíalismi í einu landi" er annars frá því Lenín var ennþá við völd, þótt Trotskí hafi kennt það við Stalín. Það er raunsætt slagorð að því leyti að maður hlýtur að nota það sem maður hefur. Ef byltingin hefur sigrað í einu landi, en ekki í fleiri löndum, þá er það eina rétt að reyna að fylgja henni eftir með uppbyggingu í þessu eina landi. Hinn valkosturinn fyrir 90 árum var ekki sósíalismi í öllum löndum heldur sósíalismi í engu landi.
Vésteinn Valgarðsson, 20.10.2016 kl. 13:22
Oxford Refernce skilgreinir hugtakið "Sósíalismi í einu landi" á eftirfarandi hátt:
Theory developed by Bukharin and Stalin and intended as a rebuttal of Trotsky's model of permanent revolution. Despite the failure of European revolutions, Russia could still build socialism through control over the commanding heights of the economy and under the political leadership of the Communist Party of the Soviet Union.
Stalín reyndi vissulega að sannfæra fólk um að hann væri bara að útfæra það sem Lenín sagði, en spurninging er "Hverjum treystir þú?" :)
Á vefsíðunni Socialist Alternative stendur:
"On the strength of three quotations plucked from Lenin’s voluminous writings, Stalin in December 1924 put forward the unheard-of idea that socialism could be built in Russia without the victory of the working class in the developed countries.
This idea went counter to everything Lenin had tried to explain, even in the documents Stalin quoted."
Wilhelm Emilsson, 21.10.2016 kl. 04:30
Takk kærlega fyrir svarið, Vésteinn, og það er fróðlegt að heyra um upplifun þína af VG. Ég skil vel hvers vegna þú vildir stofna nýjan flokk, Alþýðufylkinguna.
Wilhelm Emilsson, 21.10.2016 kl. 04:31
Það getur verið að mér skjátlist með uppruna þessa slagorðs, en reyndar finnst mér það ekki vera neitt aðalatriði. En þú sem fattaðir vísunina í "Sósíalisma í einu sveitarfélagi" hefur væntanlega líka fattað vísunina í "Fjögurra ára áætluninni".
Vésteinn Valgarðsson, 21.10.2016 kl. 13:04
Takk fyrir svarið, Vésteinn. Ef ég væri spurður álits myndi ég segja að tengslin við Stalín í gegnum slagorðið "Sósíalismi í einu sveitarfélagi" séu óheppileg fyrir Alþýðufylkinguna, svo ekki sé meira sagt. Stundum dettur mér í hug að þetta sé gálgahúmor hjá ykkkur, en það er varla þess virði, eða hvað? En samt, þetta er ykkar flokkur og þið náttúrulega veljið þau slagorð sem þið haldið að virki.
Ég fattaði vísunina í "Fjögurra ára áætluninni" og mér fannst svar þitt til Fornleifs, þegar hann var að jóka með það, skrambi gott.
Fornleifur: Hvað varð um fimm ára áætlanirnir?
Vésteinn: Kjörtímabilið á Íslandi er fjögur ár. Fattarðu?
Wilhelm Emilsson, 23.10.2016 kl. 06:16
Ég held ekki að neinn hafi hætt við að kjósa okkur út af þessu slagorði, Wilhelm.
Vésteinn Valgarðsson, 23.10.2016 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.