26.10.2016 | 13:17
Látið eins og Alþýðufylkingin sé ekki til
Það er ódýrt, að gera úttekt á stefnu stjórnmálaflokkanna og sleppa stórum hluta framboðanna úr úttektinni.
Það er hægt að vera með lélega umhverfisstefnu. Það er hægt að vera með frábæra umhverfisstefnu en nota hana bara til að slá ryki í augu kjósenda. Og svo er hægt að hafa frábæra umhverfisstefnu sem er í rökrænu samhengi við efnahagsstefnuna.
Vinstri-græn hafa t.d. mjög glæsilega umhverfisstefnu. En á síðasta kjörtímabili -- Bakki, Drekasvæðið, rafmangssæstrengur ... munið þið? Munið þið eftir þessu? Þegar á reyndi, þá var ekki hald í umhverfisstefnunni fínu. Ekki frekar en í neinu öðru í opinberri stefnuskrá VG.
Hvernig er enda hægt að taka alvarlega æðislega fína umhverfisstefnu, þegar efnahagsstefnan snýst um hagvöxt? Haxvaxtarkrafan er helsta ógnin við umhverfið, vegna þess að því minna sem er skeytt um umhverfið, þess meiri er hægt að hafa hagvöxtinn. Góð umgengni kostar.
Alþýðufylkingin boðar ekki hagvöxt. Hún boðar jöfnuð. Hún boðar aukið vægi hins félagslega í samfélaginu, á kostnað markaðarins. Það þýðir að stærri hluti af ákvörðunum í þjóðfélaginu sé tekinn á félagslegum forsendum en ekki af sérhagsmunaöflum.
Sjötti kafli kosningastefnuskrár Alþýðufylkingarinnar, Fjögurra ára áætlunarinnar, er um umhverfismál. Hér er hluti af honum:
Umhverfismálin eru brýnustu úrlausnarefni samtímans. Vistkerfum jarðarinnar er ógnað í sífellt vaxandi mæli úr öllum áttum þannig að lífsskilyrði á jörðinni eru í mikilli hættu.
Vandamálin birtast m.a. í rányrkju á auðlindum, auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og súrnun sjávar, þynningu ósonlagsins og mikilli uppsöfnun þrávirkra úrgangsefna sem komið er fyrir í mörgum af fátækustu löndum heims. Helstu orsakir umhverfisvandans stafa af sókn auðstéttarinnar eftir hámarksgróða. Með því að auka framleiðslu stöðugt er gengið hratt á auðlindir jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða. Víða er stór hluti framleiðslu og flutninga knúinn áfram með jarðefnaeldsneyti, sem hefur undanfarnar tvær aldir safnað svo miklu af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið að hlýnun jarðar er komin að bráðum hættumörkum.
Með alþjóðavæðingu auðmagnsins er framleiðsla flutt heimshorna á milli eftir því hvar vinnuaflið er ódýrast og umhverfisvernd er minnst. Þetta kostar mikla flutninga með hráefni og síðar með vörur á markað. Einnig hefur þetta í för með sér að samfélag sem verður háð viðkomandi starfsemi hefur tilhneigingu til að slaka á kröfum í umhverfismálum til að missa ekki frá sér störf. Eins er umhverfisverndarsinnum oft stillt upp frammi fyrir spurningunni hvort þeir vilji stuðla að atvinnuleysi og á hverjum það bitni.
Ráðandi stéttir reyna að stilla upp umhverfismálunum þannig að lausn þeirra sé einstaklingsbundin og ráðist af hugkvæmni og samvisku hvers og eins við sorpflokkun o.fl. Einnig reyna þær að auka forréttindi sín með því að binda rétt til mengunar við kvóta sem gengur kaupum og sölum. Þannig reynir auðstéttin að kaupa sig frá vandanum sem þó heldur áfram að aukast.
Öll helstu umhverfisvandamál og ógnanir við vistkerfi heimsins eiga sér frumorsök í eðli og hagsmunum auðstéttarinnar og kröfu hennar um sífelldan hagvöxt og hámarksgróða. Aukin velta í hagkerfinu knýr fram aukna ásókn í auðlindir og orkunotkun til að byggja undir hagvöxtinn. Þetta er tilfellið þó svo að offramleiðsla hafi verið á heimsvísu undanfarna áratugi. Lausnir umhverfisvandamálanna verða að byggjast á samfélagslegum lausnum og ákvörðunum, bæði pólitískum og tæknilegum, sem ekki stjórnast af gróðamöguleikum auðmanna.
Til að stemma stigu við aðsteðjandi umhverfisvanda er nauðsynlegt að losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis. Þegar fjármálakerfið verður rekið á félagslegum grunni án þess að soga til sín öll verðmæti úr hagkerfinu verður svigrúm til að auka fjölbreytni í atvinnu og verðmætasköpun, sem þá þarf ekki að standa undir himinháum fjármagnskostnaði. Þannig minnkar þörfin fyrir orkufreka flutninga með vörur heimshorna á milli.
Framleiðsla miðast meira við þarfir fólksins en ekki þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar til að ávaxta aukinn gróða.
Þetta er lykillinn að því að vinda ofan af umhverfisógninni og koma á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Vaxandi hreyfing í samfélaginu tekur umhverfismálin alvarlega og vinnur ötult starf til lausnar á þeim. Til að auka árangur þess og til að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi innan umhverfishreyfingarinnar á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.
Hver er stefnan um framtíð jarðar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vandamálið með stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar (og reyndar alla þá síðu) er að hún er svo tyrfin langloka að það er ekki fyrir nema gallhörðustu fylgismenn að lesa hana alla án þess að hugurinn reiki.
Skoðaðu til samanburðar síðu Flokks Fólksins, og sjáðu hvernig þú skrifar fyrir fólk með ADD.
Ásgrímur Hartmannsson, 26.10.2016 kl. 16:18
Ásgrímur, ég skal taka það til mín, að þessi kosningastefnuskrá lítur ekki neitt aðgengilega út á forminu sem ég vísaði í. Reyndar hefur hún komið út á prenti í mun aðgengilegri útgáfu. En það er samt rétt hjá þér að frumútgáfan á netinu er alls ekki nógu aðgengileg.
En slakur lesskilningur er ekki afsökun blaðamanna Morgunblaðsins. Það er stefna Morgunblaðsins að fjalla ekki um málefni "smáflokka" í þessari umfjöllun.
Vésteinn Valgarðsson, 26.10.2016 kl. 22:06
Tek mjög undir mál þitt Ásgrímur Hartmannsson og spyr, ekki þig, heldur þann sem á að kunna svarið. Tilhvers og af hverjum voru kommúnistar smíðaðir?
Hrólfur Þ Hraundal, 27.10.2016 kl. 08:25
Það er stefna - sem ég held að sé meira tilkomin af leti frekar en öðru.
Skiftir ekki öllu. Lágmarkið er 5%, er það ekki? Mig minnir það. Leti í mér að nenna ekki að fletta því upp. Þið eruð með (skv síðustu könnun sem ég man eftir) 1.X%.
Það er held ég bara ekki markaður fyrir fleiri flokka á vinstri vængnum. Og VG eru búnir að metta markaðinn fyrir marxisma. Hvort sem þér líkar betur eða verr.
Ekki veit ég hvernig þú getur gert flokkinn meira sexý fyrir þann hóp sem er fyrir það sem þú ert að selja - kjósandinn er ekki ginnkeyptur fyrir nýjungum. Og þarna megin skalans mega menn skandalisera ansi illilega.
Þetta er ekki eins og Ameríski brandarinn: þetta verður allt í lagi svo lengi sem þú næst ekki í rúminu með dauðri stelpu eða lifandi strák. (Virkar reyndar hér, en eingöngu hægra megin.)
Það hjálpar þér ekki ef þau nást í orgíu í líkhúsinu, er ég að segja.
Þú hefur kannski séns ef þú endist nógu lengi. Kannski. Virkaði fyrir Pírata. Virkar ekki fyrir Húmanista.
Fyrst er náttúrlega að vera með stefnuskrá sem nokkur maður endist til að lesa. Ég var að renna yfir þetta allt um daginn - flokkana meina ég - á meðan heimasíður margra eru verri, er bara einn flokkur sem hefur tyrfnari stíl en Alþýðuflokkurinn.
Og sá býr að verstu heimasíðunni líka.
Ásgrímur Hartmannsson, 27.10.2016 kl. 08:33
Vésteinn minn ... hver vill smátt þegar hægt er að fá stórt?
Hilmar Thor Bjarnason (IP-tala skráð) 27.10.2016 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.