15.9.2008 | 07:57
Múhammeðsteikningarnar sem neituðu að deyja
Þegar ég var í Egyptalandi í vor varð ég vel var við að fólk var reitt út í Dani. Það taldi sig líka hafa góða ástæðu fyrir því. Múhammeðsteikningarnar bar oftar á góma en ég hefði viljað. Oftar, vegna þess að því eru takmörk sett hvað maður nennir að útskýra sama málið oft. Furðulega margir sem voru bálvondir út í Dani. Þessa líka geðþekku þjóð, að svo miklu leyti sem er hægt að alhæfa.
Þetta er Abu Laban og Ahmed Akkari að kenna. Laban er nú dauður og heimildir mínar herma að Akkari sé kominn í vist hjá frændum vorum Grænlendingum. Þessi tvö fífl lögðu það á sig að ferðast um meira og minna allan "hinn íslamska heim" í þeim göfuga tilgangi að dreifa lygum og rógi um Danmörku, landið sem hafði veitt þeim báðum hæli. Út af fyrir sig hafa danskir múslimar auðvitað heilmargt til að vera súrir yfir, en fyrr má nú aldeilis vera.
Ég talaði s.s. við marga Egypta um teikningarnar. Einn þeirra var rannsóknarblaðamaður. Ég skoraði á hann að skrifa vandaða og ítarlega grein þar sem þessar lygar Labans og Akkaris væru hraktar til baka. Hann sagðist ekki leggja í það. Ekki leggja í það!
Verður ekki einhver bara að taka sig til, skrifa ítarlega grein, senda helstu blöðum í hverju einasta "múslimalandi" í þýðingu á mál heimamanna, og biðja um að fá hana prentaða? Ég get vel skilið að Austurlandabúum gremjist hegðun vestrænna ríkja, en þeir hafa nægar raunverulegar ástæður til þess, þótt þeir styðjist ekki við upplognar ástæður líka.
Rætt um að eitra vatn í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.