Bubbi með opna buxnaklauf

Ég mætti þarna aðallega af forvitni. Að því leyti varð ég ekki fyrir vonbrigðum; þetta var talsvert forvitnilegt. Fyrstu mótmælin sem ég hef verið við, sem leysast upp í popptónleika. Minnti mig reyndar alls ekki mikið á mótmæli, meira sjómannadaginn, fyrir utan að það var minna rok. Þetta minnti kannski ennþá meira á fyrsta maí. Róttæknin var í það minnsta ekki meiri, þótt klisjurnar hafi verið ennþá yfirgengilegri. Þegar ég hélt að hafsjór brimskaflanna væri þurrausinn, þá kom Bubbi Morthens og sýndi fram á annað með slíkri skorpu að ég réð varla við mig af hryllingi. Bubbi sagði frá því hvað getur verið erfitt hjá fjölskyldum, og hvað það er núna erfitt hjá okkar fjölskyldu. Hann líkti því við sína eigin fjölskyldu. Einhvern tímann var hann með víst með deliríum tremens og það var bleikur fíll í stofunni hjá honum. Stofan fór í rúst áður en nokkur minntist á fílinn. Og núna er stofan hjá fjölskyldunni okkar allra komin í rúst. Skáldlegt.

Spádómur Stefáns Friðriks rættist næstum því; Bubbi flutti splunkunýtt lagBubbiOgVodafone%2002. Það var að vísu hvorki samið gegn FL Group, Hannesi Smárasyni né öðrum kónum sem hafa farið illa með peningana hans og annarra, heldur var boðskapurinn í stuttu máli þessi: "Við erum fjölskylda, stöndum nú saman og þraukum í gegn um þessa erfiðleika eins og fjölskylda, því við erum ein stór fjölskylda." Hann bætti við, eitthvað á þessa leið: "Nú er ekki tíminn til að finna sökudólga eða benda fingri, heldur til að standa saman og bíða eftir að þetta líði hjá." Með öðrum orðum, þá benti hann engum fingrum og minntist ekki á neina sökudólga. Bubbi hefur semsé greinilega ekki dregið lærdóm af dæmisögunni sinni um bleika fílinn. Það er nefnilega bleikur fíll í stofunni hjá okkur og sá fíll heitir AUÐVALD. Það er sökudólgurinn sem kom okkur í þetta klandur og þarf að benda á og gera upp við í eitt skipti fyrir öll. Hann meinti kannski að þetta væri ein fjölskylda, hann og auðvaldið. Alla vega hefur eitthvað sljákkað í honum reiðin út í það í seinni tíð. Það er kannski eins og með fjölskyldur; þótt pabbi manns sé stundum leiðinlegur við mann þá er hann þó áfram pabbi manns?

Bubbi bað líka guð að blessa Ísland , nokkrum sinnum. Það hefði virst óviðeigandi, en í hópnum voru nokkrir með mótmælaskilti þar sem stóð "Guð blessi Ísland", svo kannski var það bara viðeigandi, þrátt fyrir allt.

Ég hef nú verið við ófá mótmælin um dagana, en af því fólki sem maður sér stundum þar, voru ekki ýkja margir á Austurvelli í dag. Bara löggurnar, rónarnir og svo ég og nokkur önnur. Þar á meðal var anti-bubba-herdeildin, sem hefur ekki áður komið fram opinberlega undir því nafni. Þau viðhöfðu viðbjóðslegan áróður gegn neyslumenningunni sem hefur gert okkur svo göfug og hamingjusöm. Siggi pönk var á svæðinu og seldi "Bankanum þínum er sama um þig"-boli. Hann er líklega einn af fáum Íslendingum geta geta séð fram á að efnast sæmilega á næstu vikum og mánuðum.

Þegar kristilegur rappari hafði lokið sér af og Bubbi var ennþá bíðandi baksviðs eftir að verða klappaður upp, sté maður dagsins óboðinn á svið. Það var Sævar Cieselsky. Hann tók lagið, spann blús án nokkurs undirleiks eða tilgerðar og uppskar meira og einlægara lófatak en önnur númer. Ég mundi alveg mæta á tónleika með honum aftur. Bubbi kom svo aftur fram, bað guð að blessa lýðinn og minnti okkur á að við værum öll ein fjölskylda. Auðvaldið og við.


mbl.is Fjöldi fólks á mótmælasamkomu Bubba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll vara Jesús, Valgarður meina ég. Maður dagsins, Sævar Cieselsky. Já, nú er það svart maður, en sumir eiga víst sína bestu takta í mótstöðu lífsins.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.10.2008 kl. 15:14

2 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Hann er nú með betri söngrödd en ég hefði búist við. Menn segja sumir að á efnahagslegum þrengingatímum blómstri listirnar. Kannski að þetta hafi verið smá tákn um það. Ekki það, að ég held að Sævar hafi nú verið í efnahagslegum þrenginum lengur en flest okkar hinna.

Vésteinn Valgarðsson, 8.10.2008 kl. 15:19

3 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Já, "hann" vísar auðvitað til Sævars Cieselsky, ekki Bubba Morthens.

Vésteinn Valgarðsson, 8.10.2008 kl. 15:26

4 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Auðvaldið og Bubbi! Það er þetta sem ég hef sjálf verið að tuða hér heima. Hvað Bubbi væri eiginlega að pæla, nýskriðinn úr rúmi auðvaldsins? Frábær grein, takk fyrir mig.

Kveðjur og heilsanir.

Rúna Guðfinnsdóttir, 8.10.2008 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband