1.11.2008 | 18:17
Enhedslisten
Ég sá viðtal við Helle Thorning-Schmidt, formann dönsku kratanna, einhvern tímann síðasta vetur þegar ég var í Danmörku. Hún minnti ískyggilega mikið á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Svaraði í almennum og innihaldslausum frösum sem hljóma vel í eyrum en er erfitt að festa hendi á.
Enhedslisten hefur verið kallaður "framboð grasrótarhreyfinganna" og er vel til vinstri við Socialistisk Folkeparti, systurflokk Vinstri-grænna. Þau hafa ekki haft ýkja mikið fylgi hingað til, en það gæti breyst. Á sama tíma reikna ég með að þau þurfi að gera ýmis mál upp við sig.
Ef það er pláss fyrir framboð vinstra megin við Vinstri-græn í Danmörku, ætli sé þá ekki pláss fyrir slíkt framboð á Íslandi? Niðurstöður Gallup, sem voru kynntar í gær eða fyrradag, sýna mjög sterka vinstrisveiflu. En ef eitthvað er að marka könnun Fréttablaðsins frá því fyrr í vikunni, þá er milli þriðjungur og helmingur kjósenda ekki nógu ánægður með neinn flokkanna. Það er rosalegur fjöldi. Alveg rosalegur.
Hvað vill fólkið sem neitar að gera upp á milli núverandi stjórnmálaflokka?
Ég veit það ekki fyrir víst, en ég ætla að láta hugann reika: Ég held að þar sé að miklu leyti á ferðinni fólk sem er orðið þreytt á borgaralegum stjórnmálu, hrossakaupum og "athafnastjórnmálum". Fólk sem vill hafa eitthvað um það að segja sjálft hvernig þetta land er rekið, eitthvað meira en að kjósa sér einræðisherra á fjögurra ára fresti.
Það segir sitt að samanlagður stuðningur stjórnarflokkanna er mun minni en stuðningur ríkisstjórnarinnar, er það ekki? Það er fjöldi fólks sem styðuyr alveg Samfylkinguna, en vill ekki að hún starfi með Sjálfstæðisflokknum. Eins og er, þá er Samfylkingin höfuðstoð auðvaldsins hér á landi. Það má leiða líkum að því að öfl innan VG mundu alveg vilja taka þann sess. Almennir flokksmenn beggja flokka eru sjálfsagt ekki allir á því máli, en eru leiddir áfram af þeim sem eru í ráðandi stöðu.
Við þurfum að endurskoða og endurskipuleggja þetta þjóðfélag frá toppi til táar. Þar á meðal stjórnarskrána. Þar á ekkert að vera heilagt og ekkert fyrirfram gefið. Ég sé til að mynda ekki að við ættum að gefa okkur það að hér verði áfram rekið hagkerfi á forsendum auðvaldsins. Ég held að það sé gengið sér til húðar, og ég held að stór hluti landsmanna hafi áttað sig á því og sá hópur fari stækkandi.
Það eru til ýmsar útfærslur á betra hagkerfi á félagslegum forsendum, og látum þær liggja milli hluta að sinni. En það er ein breyting sem við þurfum að taka upp í stjórnarskrána, og það er að kjörnir fulltrúar séu afsetjanlegir hvenær sem er. Aftur má útfæra það á ýmsan veg, en það felur í sér að umbjóðendurfulltrúans geti afturkallað umboðið þegar þeim finnst kominn tími til. Fjögurra ára kjörtímabil er of langt. Stjórnmálamann, sem ekki stendur sig, á að vera hægt að taka úr ábyrgðarstöðu án þess að uppreisn þurfi til. Þegar við erum komin með kerfi sem felur í sér stöðugt, virkt og síkvikt aðhald við stjórnmálamenn, þá erum við byrjuð að tala saman. Þá er þjóðin komin með taumana í hendurnar og getur farið að velta við öðrum steinum.
Fylgi danskra stjórnarandstöðuflokka eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.