4.1.2009 | 04:18
Ég er ekki ánægður
Vinstri-græn mega eiga ýmislegt, meðal annars að vera langskásti kosturinn sem er í boði í íslenskri flokkapólitík. En fyrir fólk sem hefur fengið nóg af auðvaldsskipulaginu er hann langt frá því að vera "nógu góður". Það sem mér finnst eftirtektarverðast við ástandið um þessar mundir og hlutverk VG, er að VG skuli ekki láta meira á sér bera, að flokkurinn hafi sig ekki meira í frammi en hann gerir.
Sósíalískur flokkur hefði verið kominn fram með sósíalískar, alvöru lausnir á rótum vandamálanna sem steðja að okkur. VG er ekki sósíalískur flokkur, heldur vinstri-kratískur. Að því sögðu vil ég taka fram að ég veit vel að innan VG er fjöldi góðra og gildra sósíalista. Ég er ekki að setja út á flokkinn vegna þess að þar séu engir alvöru sósíalistar, heldur vegna þess að stefna hans er ekki sósíalísk. Mun það breytast? Getur það breyst? Ég veit það ekki. Vonandi mun það gera það, en ég bíð með að trúa því þangað til ég sé það.
Eitt hnýt ég um í tilvitnuðum orðum Steingríms: "systurflokkur okkar, Sósíalíski þjóðarflokkurinn". Hann er þarna að tala um Socialistisk Folkeparti í Danmörku. Ég hnýt ekki um þetta vegna þess að það komi mér á óvart, heldur vegna þess að ég fíla SF ekki nema tæplega. SF er nefnilega alls ekki sósíalískur flokkur, þótt hann kalli sig það, heldur vinstri-kratískur. Því til stuðnings vil ég vísa ummæli Villy Søvndal, formanns SF, og umfjöllun um þau í dagblaðinu Arbejderen: Bye, bye socialisme: "I et interview i Nyhedsavisen slår Søvndal fast, at partiet hverken i teori eller praksis arbejder på at afskaffe kapitalismen, og at det er mange år siden, SF har forsøgt at afskaffe markedsøkonomien. Villy Søvndal erklærer frejdigt, at kapitalismen efter hans mening er dynamisk og 'den nemmeste måde at fordele varer på'."
Það var nefnilega það. Þurfið þér frekari vitnanna við? Tilfellið er að það sama er uppi á teningnum hér á landi. VG þykist ekki einu sinni ætla að afnema auðvaldsskipulagið. Hvað þá að flokkurinn bjóði upp á einhverjar trúverðugar aðferðir til þess. Þetta er í stuttu máli ástæðan fyrir því að mér finnst VG ekki vera fullnægjandi flokkur fyrir minn smekk. Ég endurtek þó að ég get ekki bent á annan betri hér á landi. Að minnsta kosti ekki ennþá.
Kosningar óumflýjanlegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sósíalískur flokkur þarf að hafa verkalýðsbaráttu á stefnu sinni. Verður fólk var við það hjá vg?
Svar:nei
Reynir Andri, 5.1.2009 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.