14.1.2015 | 09:45
Ég er ekki Charlie
Hin grimmilega árás á Charlie Hebdo var hefndaraðgerð í stríði milli tveggja afturhaldsafla, miklu frekar en "árás á tjáningarfrelsið". Það frelsi er reyndar orðum aukið -- en jafnvel þótt maður megi þannig séð vera dóni, þá þýðir það ekki að maður ætti að vera það. Eða man einhver hvernig gyðinga-skopmyndasamkeppninni Ahmadinejads mæltist fyrir hér um árið?
Ofbeldi tekur á sig fleiri myndir en bara þá líkamlegu. Múslimar sem búa á Vesturlöndum hafa sætt andlegu ofbeldi lengi, lengi. Ögranir, háð og spott á þeirra kostnað er hluti af því. Það festist ekki á filmu og rasistum finnst auðvelt að láta eins og múslimar hafi bara ekki húmor.
Er ekki fyrirsjáanlegt að æsingamenn gangi of langt og grípi m.a. til ofbeldis? Menn hljóta að sjá að þessi leið -- leið ögrana, tortryggni, ofbeldis -- liggur til ófriðar, sem verður á endanum verst fyrir okkur öll. Það á ekki að láta þau öfl stjórna umræðunni.
Ég ætla ekkert að afsaka fjöldamorð á óbreyttum borgurum. En ég upplifi þessa árás ekki sem árás á "okkur" ef "við" erum fólkið sem finnst allt í lagi að smána minnihlutahópa.
Ég er ekki Charlie.
Áhlaup á blaðsölustaði í París | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú svolítið ögrandi pistill, ekki satt?
Wilhelm Emilsson, 14.1.2015 kl. 11:31
Ögranir "leiða" ekki til ofbeldis. Sumir kjósa bara að bregðast við ögrunum með ofbeldi. Þú neitar því sjálfsagt að þú sért að taka upp hanskann fyrir þá, en það ertu að gera.
Geir Ágústsson, 14.1.2015 kl. 11:57
Þessar hugleiðingar Vésteins eru ekki endilega ögrandi - bara sett fram af vanþekkingu og í versta falli, heimsku. - Annars eiga menn (eins og Vésteinn vill gera sig út fyrir) að hafa svona lagað bara fyrir sig, og læst inni. Vésteinn er líklega einn af þeim sem þrætir fyrir útrýmingabúðir nasista sýinst mér á skrifum hans og tekur upp hanskann fyrir trúarlegt ofbeldi.
Það er hans mál...en bágt að sjá.
Már Elíson, 14.1.2015 kl. 12:09
Geir, Már ... eruð þið að grínast?
Vésteinn Valgarðsson, 14.1.2015 kl. 12:20
Willum: Finnst þér ögrandi að ég sé á móti því að fólk sé smánað þegar það stendur höllum fæti fyrir í samfélagi.
Vésteinn Valgarðsson, 14.1.2015 kl. 12:55
"...í samfélaginu?" átti að standa þarna.
Vésteinn Valgarðsson, 14.1.2015 kl. 13:04
Már Elísson, margt má segja um Véstein, en þú ert svo fullur að sleggjudómum, að þú hefur greinilega slegið sjálfan þig í höfuðið. Lestu yfirleitt það sem þú gerir athugasemdir við. Vésteinn hefur aldrei þrætt fyrir fangabúðir nasista, en stundum líkir hann þeim við Gaza - og þá af hreinni vankunnáttu. Hann er nú einu sinni vinstri maður. Þeir töluðu gjarna um stríð Hitlers gegn öreigunum, en aldrei um stríð Hitlers gegn gyðingum.
Þegar fræðimenn rannsaka t.d. gyðingahatur í Evrópu, kemur sífellt betur í ljós, að það er mikið en langmest meðal múslíma - og ekki aðeins meðal þeirra sem eru öfgafullir. "Smánun múslíma" er því of stórt tekið upp í sig. Múslímar á Vesturlöndum er ekki smánaðir. Þeir njóta víðast hvar meiri réttinda á Vesturlöndum en í þeim löndum sem þeir fluttu eða flýðu frá. En þegar múslímar smána aðra með ídeólógíu eða jafnvel trúarbrögðum sínum, er vart hægt að halda því fram að menn séu smánaðir.
Hvað varðar Charlie Hebdo fárið, þá skil ég alveg hvert Vésteinn er að fara. En miðað við það sem hann hefur skrifað um öfgamúslíma í Danmörku, er ég nokkuð viss um að Vésteinn sé ekki að taka hanskann upp fyrir "upp fyrir þá" eins og Geir heldur fram.
FORNLEIFUR, 14.1.2015 kl. 13:47
Það er langt seilst í réttlætingum á morðum.
Þú hefðir eiginlega verið trúverðugri, hefðir þú hreinlega sleppt því að taka fram, að þú værir ekki að styðja morð.
ALLIR útlendingar í öðrum löndum verða fyrir fordómum, háði eða öðru sem MÁ túlka sem útlendingahatur, án þess að taka sig til og myrða.
Það eru ótal dæmi um ofangreint út um allan heim, t.d. hafa Pólverjar kvartað yfir miklum fordómum í sinn garð í Bretlandi, án þess þó að hafa framið fjöldamorð í kjölfarið.
Ég segi eins og borgarstjórinn í Rotterdam, drullist eitthvað annað, ef þið getið ekki unað vestrænum gildum.
Hilmar (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 15:07
1. Það að gera grín að hryðjuverkamönnum, eins og Charlie Hebdo hefur gert, er ekki það sama og að gera grín að minnihlutahópum.
2. Háðfuglar eins og þeir sem standa að Charlie gera grín að öllum. Vitanlega getur sumum sárnað þegar gert er grín að þeim, en það verður einfaldlega að hafa það.
3. Þolinmæði gagnvart gríni hefur ávallt verið mikilvægasti mælikvarðinn á stöðu málfrelsis. Grínið er það sem einræðisherrar og kúgunarstjórnir þola verst. Þegar tekið er til við að reyna að banna grín og háð erum við svo sannarlega komin á ranga braut.
4. Ég legg til að þú lesir Brandarann (La Plaisanterie) eftir Kundera. Betri greinargerð um gildi háðsins er vandfundin.
Þorsteinn Siglaugsson, 14.1.2015 kl. 15:54
Vésteinn, ég sé alveg punktinn hjá þér. Ég segi líka að hegðun Charlie Hebdo er ókristileg og röng. Það sem ég hef séð af þeirra gríni þá er það rætið og dónalegt. Þótt ég tel að stór orsök þessara árása sé hugmyndafræði Múhameðs þar sem hann bannar að myndir séu teiknaðar af sér og brást sjálfur við með ofbeldi þegar var gert grín að honum, þrátt fyrir allt það þá finnst mér Vésteinn koma með góðan punkt að fólk sem móðgar miljónir manna ætti ekki að vera undrandi ef einhverjir þeirra virkilega móðgast og vilja hefnd.
Ég vil ekki leika leik Charlie Hebdo þó ég vil verja þeirra rétt á því að tjá sig.
Mofi, 14.1.2015 kl. 16:57
Margt í þessum pistli sem vert er að huga að. Ég er ekki sammála öllu í smáatriðum, en þarna koma fram sjónarmið sem hefur vantað í umræðuna. En mér sýnist á athugasemdunum mörgum hverjum að menn vilji takmarka tjáningarfrelsið eða a.m.k. skilyrða það því að það séu settar fram "réttar" skoðanir. Það er hin ógeðslega hræsni sem hefur opinberast í þessu máli.
Steinar Frímannsson (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 19:00
Það er nú farið að kvisast að Charlie hafi kannski ekki verið allur þar sem hann var séður.
Það virðist vera að hann hafi rekið blaðamann fyrir nokkrum árum ,fyrir að gera grín að gyðingum.Eftir að stjórnvöld í Ísrael gerðu athugasemd var maðurinn látinn taka pokann sinn,vafningalaust.
Það hefur líka spurst að tilgangur blaðsins hafi ekki verið að andæfa Islamistum heldur að ögra þeim þangað til að eitthvað gerðist.Það vantaði sárlega stuðning við þáttöku frakka í aðgerðunum í miðausturlöndum.
Nú er sá stuðningur tryggður,en sennilega hefur Charlie ekki átt von á að hlutirnir æxluðust með þessum hætti
Borgþór Jónsson, 14.1.2015 kl. 19:33
Takk fyrir svarið, Vésteinn. Og velkominn aftur á Moggabloggið. Mér finnst alltaf áhugavert að lesa það sem þú hefur að segja.
Ég virði málfrelsið og rétt þinn til að segja "Ég er ekki Charlie" en þú hlýtur að sjá að það felur í sér ögrun gagnvart þeim sem sýna samstöðu með þeim sem hryðuverkamennirnir myrtu til þagga niður í fólki sem nýtti sér málfrelsið til að gera grín, ekki bara að Íslam heldur öllum.
Ég upplifa það sem þú segir sem óvirðingu við fórnarlömbin og málfrelsið, sem þú nýtur. í stað þess að sýna samúð með fórnarlömbunum og standa vörð um málfrelsið sakar þú grínista um að „smána minnihlutahópa". Grínistar gera grín. Það er þeirra hlutverk. Grínið er vissulega ekki alltaf smekklegt. Og gagnrýni er ekki alltaf smekkleg.
Mér finnst gagnrýni þín og það sem mér finnst vera ögrun ósmekkleg, en ég virði rétt þinn til að gagnrýna og ögra.
Wilhelm Emilsson, 14.1.2015 kl. 19:46
Vilhjálmur, ég hef aldrei borið saman Gaza og útrýmingarbúðir. Ég hef borið saman Gaza og gettóið í Varsjá. Og hafa vinstrimenn ekki talað um stríð Hitlers gegn gyðingum? Hvaða bull er þetta?
Ég held að framferði Ísraela gagnvart Palestínumönnum hafi töluvert með það að gera að gyðingahatur sé algengt meðal múslima. Það bætir ekki úr skák að zíonistar gera hvorki sjálfum sér né öðrum gyðingum lítinn greiða með því að grauta iðulega saman bæði gyðingdómi og zíonisma, og antisemítisma og antizíonisma.
Auðvitað eru múslimar smánaðir á Vesturlöndum, þótt það sé á annan hátt en í Austurlöndum. Hvað heldurðu að þeir sjái oft múslimahatandi veggjakrot á götum Kaíró eða Tehran? Á nítjándu öld sögðu formælendur þrælahalds í Bandaríkjunum að svertingjar hefðu það betra sem þrælar í Ameríku en í Afríku. Var það ekki rétt hjá þeim, þannig séð? Þeir voru samt þrælar.
Þorsteinn, myndbirtingar af Múhameð eru ætlaðar til þess að ögra múslimum. Þú getur teiknað skrípamyndir af hverjum sem er, en það munu ekki allir bregðast eins við, og eitt af því sem skilur á milli er þjóðfélagsstaðan. "Grín" sem ýtir undir fordóma og staðalímyndir um þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja, hæðir þá og smánar og ögrar og niðurlægir -- það grín á ekki rétt á sér, þótt það sé ekki bannað með lögum. Þriðji punktur þinn er ekki í neinu samhengi við málið, því múslimar á Vesturlöndum eru ekki í ráðandi stöðu eins og einræðisherrar eða kúgunarstjórnir, heldur þveröfugt.
Willum, auðvitað hef ég samúð með (beinum) fórnarlömbum þessara árása og aðstandendum þeirra. En ekki hvað? Þarf ég að taka það fram að ég hafi andstyggð á fjöldamorðum?
Ég er trúleysingi, mér finnst öll trúarbrögð vera úti á þekju, ásamt öllum stjórnmálastefnum sem byggja á trúarbrögðum. Þannig að ég hef heldur hvorki samúð með íslam sem trúarbrögðum né íslamisma sem stjórnmálastefnu ... svona, svo ég taki vægt til orða. En að láta reiði beinast að saklausu fólki - það er lína sem má ekki fara yfir. Ekki bara vegna þess að það sé ranglátt, heldur spillir það líka fyrir okkur hinum.
Öfgamenn um alla Evrópu, og þótt víðar sé leitað, hafa undanfarið verið að reyna að nota þessar árásir fyrir sinn eigin málstað. Og vel að merkja: Þegar ég segi öfgamenn er ég bæði að tala um herskáa íslamista og líka vestræna rasista. Því þarf að andæfa, því það hefur annars alvarlegar afleiðingar, og þær afleiðingar verða meira en "ósmekklegar".
Það sem meira er: Meginpunkturinn minn er ekki einhver vinstriróttækni. Þú heyrir hann og lest í mainstream-fjölmiðlum og frá borgaralegum stjórnmálamönnum út um allt: Þessir þorparabræður þarna eru ekki fulltrúar múslima og það má ekki hegna saklausum múslimum fyrir það sem þeir gerðu.
Vésteinn Valgarðsson, 14.1.2015 kl. 20:41
Takk fyrir svarið, Vésteinn. "[Þ]að má ekki hegna saklausum múslimum fyrir það sem þeir [þorparabræðurnir] gerðu," skrifar þú. Ég vona að sem flestir séu sammála þessu.
Þú skrifar einnig:
myndbirtingar af Múhameð eru ætlaðar til þess að ögra múslimum. Þú getur teiknað skrípamyndir af hverjum sem er, en það munu ekki allir bregðast eins við, og eitt af því sem skilur á milli er þjóðfélagsstaðan. "Grín" sem ýtir undir fordóma og staðalímyndir um þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja, hæðir þá og smánar og ögrar og niðurlægir -- það grín á ekki rétt á sér, þótt það sé ekki bannað með lögum.
Ég er ósammála því að löglegt grín eigi ekki rétt á sér. Grínistar minnihlutahópa gera til dæmis reglulega grín, oft mjög gróft, að staðalímyndum eigin hóps.
Og talandi um grín. Ég er trúlaus eins og þú og fannst það bara fyndið þegar þú varst með krossfestan bangsa fyrir framan Alþingi--ég vona að ég fari ekki með rangt mál; ég hef bara séð mynd af þessu--en sumir kristnir myndu taka þetta sem grófa móðgun og árás á trúarbrögð og menningu þeirra, ekki satt?
Wilhelm Emilsson, 14.1.2015 kl. 21:21
Hvernig getur frelsi "verið orðum aukið"? Skýring óskast frá síðuhöfundi, um það hvað felst í frelsi og hvernig það geti verið "orðum aukið"?
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 15.1.2015 kl. 01:16
Það á að vera frelsi til að gera og segja hvað sem er framarlega sem það kemur ekki niður á öðrum.þannig lít ég á það. Í því felst að bera virðingu fyrir öðrum og þeirra skoðunum, tilfinningum og lífsviðhorfum svo framarlega að þær skoðanir, tilfinningar og lífsviðhorf koma ekki niður á manni sjálfum. Þetta virkar kannski flókið á einhverja en er það í raun alls ekki.
Jósef Smári Ásmundsson, 15.1.2015 kl. 08:42
Vésteinn: Myndbirtingar af Múhameð eru ætlaðar til að sýna hryðjuverkamönnum fram á að þeim muni ekki takast að hefta málfrelsið. Auk þess verður að hafa í huga að þótt múslimum sé bannað að gera myndir af spámanninum, og raunar af fólki og dýrum almennt, er það ekki á forræði leiðtoga þeirra að banna öðrum það, ekkert fremur en að banna öðrum að snæða svínakjöt eða drekka áfengi. Hófsamir múslimar kippa sér líka lítið upp við svona, ekkert frekar en að hófsamir kristnir menn kippi sér upp við ókurteislegar myndir af heilagri þrenningu. En ofstækismenn gera það. Og ofstækismenn eiga ekki að fá að stjórna okkur.
Þriðji punktur minn snýr að því að benda á tengsl húmors og málfrelsis og að það er hættumerki þegar menn vilja fara að banna brandara. Staða múslima á Vesturlöndum kemur því máli ekkert við.
Þorsteinn Siglaugsson, 15.1.2015 kl. 09:50
Willum, það er ekki það sama að gera grín að staðalímyndum síns eigin hóps eða að gera grín að staðalímyndum hóps sem á undir högg að sækja. Það er mikill munur á gríni á kostnað hóps eftir því hvort hann er þjóðfélagslega sterkur eða þjóðfélagslega veikur. Hvort maður sparkar upp fyrir sig eða niður fyrir sig. Það gleður mig að þér líki krossfesti bangsinn minn. Með honum var ég viljandi að brjóta lög um guðlast í von um að það vekti athygli á því að þau séu ennþá til. Ef einhver tekur því sem árás á kristið fólk (sem ég get þannig séð skilið, þótt það hafi ekki verið meint þannig), þá ber að líta til þess að kristnir eru (ennþá) forréttindahópur í þjóðfélagi okkar. En ég vil líka taka fram, svo það fari ekki milli mála hvað ég meina með að "eiga rétt á sér", að ég er ekki að tala um að innleiða opinbera ritskoðun. Bara að fólk hugsi um afleiðingar þess sem það gerir eða segir.
Halldór, tjáningarfrelsið er orðum aukið vegna þess að eins og því er hampað, þá er því verulegar skorður settar hvað (a) lög leyfa að við tjáum og (b) hvað fjölmiðlar birta og (c) hvað við getum tjáð í hvaða rými. Svo við höldum okkur við Ísland, þá er t.d. bannað með lögum að guðlasta og að smána erlenda þjóðhöfðingja. Ef ég skrifaði grein þar sem ég héldi því fram að það væri nauðsynlegt að útrýma hommum eða Thaílendingum eða konum, þá mundi enginn fjölmiðill birta hana. Og banki getur fengið leyfi til að setja upp bás í Kringlunni til að bjóða fólki að láta féfletta sig en ég fæ ekki leyfi til að standa þar og útbýta flugritum þar sem ég hvet fólk til að sniðganga vörur frá Bandaríkjunum.
Þorsteinn, málfrelsi er ekki eitthvað sem hryðjuverkahópar eða aðrir glæpamenn stjórna. Það eru lögin í landinu sem segja til um hvort þar er málfrelsi eða ekki. Þannig að ef ég kalla þig illum nöfnum og þú gefur mér á kjaftinn, þá er það líkamsárás, en þú ert ekki að hefta málfrelsi mitt. En ef þú ert þingmaður og greiðir atkvæði með lögum um að mér sé bannað að kalla þig illum nöfnum, þá ertu að hefta málfrelsi mitt. Og hvað veist þú um það hvað "hófsömum múslimum" finnst um Múhameðsteikningar? Ég giska á að þeir hafi margbreytilegar skoðanir á þeim. Ég giska á að nokkuð mörgum þeirra finnist óþægilegt að menning þeirra sé gert að skotmarki eða að það sé krotað "drepum múslima" á húsið þeirra.
Vésteinn Valgarðsson, 15.1.2015 kl. 11:04
Múslimar eru partur af vestrænum samfélögum og eiga ekki að vera neitt annað en það. Þeir eiga ekkert að vera neitt "heilagri" en aðrir hópar. Eru ekki t.d kaþólikkar minnihlutahópur á Íslandi,mormónar? hvítasunnumenn? ofl ofl.Þessir hópar verða fyrir háði og spotti en ekki hef ég orðið var við neinar rótækar aðgerðir af þeirra hálfu á samfélagið ? Þeir bera harm sinn í hljóði þrátt fyrir gegndalaust svokallað tjáningarfrelsi. Sama er í öðrum Evrópuríkjum, eru ekki ýmsir hópar þar skotspænir háðs og spotts af ýmsu tagi? Það þykir sjálfsagt mál að skopast með trú kristinna og þar eru ýmsir "minnihlutahópar" líka. Ég skil alveg reiði múslima og annarra á þessu gegndarlausa og misnotaða tjáningarfrelsi.Víst að samfélög okkar eru svona þá verða þeir að lifa við það eins og aðrir "minnihlutahópar". Allir þessir hópar eru samfélagið líka.
Finnur (IP-tala skráð) 15.1.2015 kl. 18:17
Ég er ekki að segja að þetta sé vegna þess að þeir séu minnihlutahópur heldur vegna þess að þeir standa höllum fæti í samfélaginu, þeir eiga undir högg að sækja, þeir eru annars flokks borgarar. Það eru kristnir menn ekki. Það er ljótt að sparka niður fyrir sig í þjóðfélagsstiganum með hatursorðræðu eða öðru andlegu ofbeldi. Jafnvel þótt það sé ekki bannað með lögum.
Vésteinn Valgarðsson, 15.1.2015 kl. 21:32
Wilhelm, afsakið, ég mislas nafnið þitt.
Vésteinn Valgarðsson, 15.1.2015 kl. 21:34
Já, ég man eftir "gyðinga-skopmyndasamkeppni Ahmadinejads" en minnist þess ekki að nokkur hafi verið drepinn vegna þeirra.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2015 kl. 03:25
Hér eru nokrar sláandi upplýsingar um múslima:
http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/1582417/
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2015 kl. 03:26
Það kemur mér ekkert á óvart að afturhaldssamar hugmyndir séu útbreiddar meðal múslima (eða annarra) og ég geri mér engar grillur um að múslimar séu eitthvað heilagri eða göfugri en annað fólk.
Vésteinn Valgarðsson, 16.1.2015 kl. 11:43
Er og hefur verið málfrelsi í Frakklandi?
Dæmi: Franska skopmyndablaðið Harakiri gerir frekar góðlátlegt grín að dauða Charles de Gaulle, viðbrögðin verða svo ofsafengin að eigendur ákveða að hætta útgáfu blaðsins og stofna til nýrrar útgáfu undir nafninu Charlie (Hebdo) í höfuðið á Charles de Gaulle.
Grínistinn Dieudonné M´bala handtekinn vegna ummæla sem tengjast árásinni á Charlie Hebdo ...
Því hefur verið fleygt að tilvera öfga-múslima hafi í raun bjargað Charlie Hebdo frá gjaldþroti og nú græða þeir sem aldrei fyrr ...
Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 09:10
Svo var maður tekinn fastur í Frakklandi fyrir að "gera lítið úr" árásinni.
Vésteinn Valgarðsson, 17.1.2015 kl. 12:38
Russel Brand er meðetta ...
https://www.youtube.com/watch?v=RPK7t5B2UN4#t=410
Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.