23.2.2009 | 16:13
Vopnasölubann
"Það síðasta sem þetta svæði þarfnast er meira að vopnum" segja friðarsinnar. Þótt það megi alveg segja það, þá ristir þessi afstaða ekki ýkja djúpt. Hún setur samasemmerki milli Palestínumanna og Ísraela, milli hernuminnar þjóðar og hernámsþjóðar. Það væri fínt ef menn hefðu ekki stórvirkar vinnuvélar í höndunum til þess að brytja nágranna sína niður með, en ég held ekki að vopnasölubann skili þeim árangri. Ísraelar eru ekki bara stórtækir vopnakaupendur, þeir eru einnig stórtækir vopnaframleiðendur. Þeir geta alveg haldið sínu striki þótt þeir þurfi sjálfir að framleiða vopnin sem þeir nota. Þeir fá hvort sem er svo mikinn stuðning frá Bandaríkjunum að þeir gætu vel borgað fyrir framleiðsluna þannig. Hernámið er aðalatriðið, að hernámi Palestínu verði aflétt. Hernámið og zíonisminn. Hernámið er verklega hliðin, zíonisminn hugmyndafræðilega hliðin á sömu rasísku hrokastefnunni.
Fyrir utan það, þá kemur mér í huga spánska borgarastríðið 1936-1939 þegar er talað um vopnasölubann. Þá samþykkti Þjóðabandalagið vopnasölubann á Spán, bæði á lýðveldið og uppreisnarhyski falangista. Það þýddi að lýðveldið hætti að geta fengið vopn frá Vesturlöndum, og eina ríkið sem studdi það voru Sovétríkin, sem áttu þó erfitt með að hjálpa Spánverjum. Falangistar fengu áfram allan þann stuðning sem þeir þurftu, frá Öxulveldunum, sem brutu einfaldlega bannið eins og þeim sýndist. Það sem átti að heita vopnasölubann á Spán var ekkert annað en vopnasölubann á lýðveldissinna.
Ef Öryggisráðið samþykkti svona bann, sem er ekki beint líklegt miðað við hverjir hafa neitunarvald þar, þá trúi ég því ekki að Ísraelar yrðu ráðalausir.
Vilja að bannað verði að selja Ísraelum og Hamas-liðum vopn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.