4.9.2009 | 23:41
Fundurinn í morgun
Ég fór á fundinn á Kleppi í morgun. Stjórn Landspítalans er nú ekki í öfundsverðri stöðu, verð ég að segja. Þeim er gert að skera mikið niður, og vandséð hvernig það verður gert á sársaukalausan hátt -- þegar reksturinn er nú þegar sársaukafullur. Skipanir að ofan um að spara -- ekki geta þau neitað, þau verða bara að velja hverju skal þyrma og hverju ekki. Þetta er fáránlegt.
Ekki bætir úr skák, að sem stærsti opinberi vinnustaður Íslands, er Landspítali undir smásjá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem m.a. fær í hendurnar öll gögn um spítalann, kostnað við rekstur hans, áætlanir um niðurskurð og framkvæmd þeirra, þýdd á ensku. Rekstur Landspítalans skiptir þar með stórmáli í sjálfu mati AGS á íslenska ríkinu.
Á fundinum í morgun var Hulda spurð um möguleika á gjaldtöku fyrir sjúklinga fyrir þjónustuna. Hún kvaðst ekki geta svarað því, það væri pólitísk ákvörðun. En er það ekki líka pólitísk ákvörðun, hvernig niðurskurði er háttað? Hverjum er sagt upp? Hvernig er forgangsraðað? Vandamálið sjálft er pólitískt og er í stuttu máli þetta: Landspítalanum er of þröngur stakkur skorinn. Spítalanum er ekki einu sinni bættur upp stórskaði vegna gengisþróunar undanfarið. Lausnin á hinu pólitíska vandamáli er jafnframt pólitísk; fjársvelti Landspítala verður ekki leyst með uppsögnum eða ráðningabanni. Nei, það þarf að skoða heildarmyndina, endurskipuleggja heilbrigðiskerfið að miklu leyti á félagslegum forsendum og reka það af myndarskap.
Reiknar með að snúa aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.