Þorið að berjast og þorið að sigra

Leikskólakennarar (og fleiri uppeldir- og umönnunarstétir) þurfa að fylgja fordæmi framhaldsskólakennara og berjast fyrir sínu. Það er mjög ólíklegt að ástandið batni að ráði nema þannig. Fylgið fordæminu og gefið okkur hinum nýtt fordæmi sem við getum fylgt.


mbl.is Samstaða meðal leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það yrði skrítin vinstristjórn

Hvernig er hægt að kalla það vinstristjórn, ef það er ekki einn einasti vinstriflokkur með í henni?


mbl.is Ræða mögulega vinstri stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt lætur eins og Alþýðufylkingin sé ekki til

Bene­dikt Jó­hann­es­son ... sagði aðra flokka setja fram kosn­ingalof­orð sem kosti allt frá 100 til 200 millj­arða án þess að tala sér­sta­kega um fjár­mögn­un. Mark­miðið Viðreisn­ar væri að lífs­kjör á Íslandi yrðu sam­bæri­leg við ná­granna­lönd­in og til þess yrði að lækka vaxta­kostnað.

Alþýðufylkingin hefur háleit markmið fyrir komandi kjörtímabil. Ég gef mér að Benedikt, og margir aðrir muni telja kosningastefnuskrá okkar með í kategóríunni "kosningaloforð", þótt hún sé reyndar frekar samhengi baráttumarkmiða fyrir kjörtímabilið, sem við munum ekki uppfylla fyrir fólk heldur taka þátt í að berjast fyrir.

En okkar markmið fela í sér geysilega mikla uppbyggingu á innvðum samfélagsins, þar sem segja má að ekkert sé til sparað. En ólíkt svo mörgum höfum við einfalt svar við því, hvaðan peningarnir eiga að koma: frá fjármálaauðvaldinu. Á meðan bankakerfið tekur sér arð sem minnir helst á fjárlög íslenska ríkisins, þá skal enginn segja mér að það séu ekki til nógir peningar í þessu landi.

Félagsvætt fjármálakerfi býður fjármálaþjónustu án vaxta. Það getur gert það vegna þess að það er ekki sjálft fjármagnað með lánsfé, heldur er það fjármagnað með samfélagslegu eiginfé. Með öðrum orðum: Í stað þess að leigja peninga, þá skiptumst við á um að nota þá. Sparnaðurinn dugar til að margborga allar þær umbætur sem þörf er á.

Þau tala um að lækka vaxtakostnað. Sá sem styður það ætti frekar að kjósa Alþýðufylkinguna. Hún vill útrýma vaxtakostnaði.

 


mbl.is Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðrir" = ?

Nú þegir þessi frétt um fylgi Alþýðufylkingarinnar o.fl., eins og svo oft sést í fréttum af skoðanakönnunum þessa dagana. Ástæðan er líklega að blaðamanninum þykir ekki taka því að greina frá því hvað minnstu flokkarnir hafi. Þöggunin viðheldur litlu fylgi. Þessu er auðvelt að taka sem óréttlæti.

Í fréttum um daginn var tilgreint fylgi tíu flokka. Svo var sagt að "aðrir" flokkar hefðu mælst með 3,4%. Einu flokkarnir sem ég gat séð að vantaði í upptalninguna voru Alþýðufylkingin og Húmarnistaflokkurinn.


mbl.is Áfram sveiflast fylgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar

Ríkisútvarpið hefur birt á heimasíðu sinni kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar fyrir komandi Alþingiskosningar. Farið á heimasíðu RÚV, kynningarsíðuna um Alþýðufylkinguna, og sjáið kynningarmyndbandið. Það er ofarlega til vinstri á síðunni.


Hverjum treystir þú?

Auglýsingaherferð VG "Hverjum treystir þú?" byggist greinilega á einhverri markaðskönnun á trausti og kjörþokka. Hún er ómálefnaleg, eins og reyndar auglýsingaherferðir VG hafa oft verið áður. Nægir þar að rifja upp slagorðið, ef slagorð skyldi kalla: "VG - vegur til framtíðar" sem flokkurinn var með 2007 og sá ekki ástæðu til að endurskoða, frekar en nokkuð annað, fyrir kosningarnar 2009, þótt efnahagshrun hefði orðið í millitíðinni.

"Við eigum bara að minna á það", sagði Katrín Jakobsdóttir þá, "að við berum ekki ábyrgð á hruninu!" Forystunni þótti Hrunið ekki vera ástæða til að endurskoða stefnu flokksins, sem gekk til kosninga sem pólitísk jómfrú.

Pólitíska jómfrú er samt ekki beint hægt að kalla það VG sem var í ríkisstjórn 2009-2013. Listi vonbrigða og svika er svo langur að ég óttast helst að hafa gleymt einhverju stórmálinu, það var ESB-umsóknin, IceSave, Magma-málið, einkavæðing bankanna. Það var úrræðaleysi í húsnæðismálum, eða réttara sagt bankarnir látnir um að útfæra húsnæðisstefnuna, sem VG gat þá þvegið hendur sínar af. Það var áframhaldandi stóriðjustefna. Það var efnahagsstefnan, mótuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég reifaði þetta allt saman árið 2012 þegar ég sagði mig úr VG og fór að undirbúa stofnun Alþýðufylkingarinnar.

"En dokaðu við," segið þið kannski, "það var Steingrímur sem bar ábyrgð á þessu öllu!" Hann bar kannski mesta ábyrgð sem formaður flokksins, en Katrín var varaformaður og hefur sjálf margsagt að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli þeirra Steingríms. Ekki hnífurinn á milli. Og meirihluti flokksins, sjúkur af tækifærisstefnu og meðvirkni, tók fullan þátt. Ég man meira að segja að aðstoðarmenn ráðherra VG voru farnir að skrifa greinar þar sem þeir réðust á ESB-andstöðuna, sjálfir flæktir inn í svikin upp á herðablöð.

Fylgisaukningin bendir til þess að þessi ný-stalíníska persónudýrkun: innihaldslaust slagorðaskrum og brosandi andlit - virki kannski. Það er svosem ekkert við því að segja. En þó vil ég segja þetta: Ég treysti ekki Vinstri-grænum. Ég treysti ekki þeim sem hafa svikið sína eigin stefnuskrá og sína eigin kjósendur í heilt kjörtímabil. Ég treysti ekki þeim sem hafa látið flokkseigendafélag VG draga sig á asnaeyrunum, gera það enn og eru staðráðnir í að gera það líka í framtíðinni.

Þegar ég sagði mig úr VG árið 2012 skrifaði ég m.a. þetta:

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr – eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.

Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.

Þennan flokk sárvantar ekki lengur, hann er til. Hann heitir Alþýðufylkingin. Það ber ekki að skilja þessa færslu svo, að baráttan okkar snúist eitthvað sérstaklega um VG. Hún gerir það ekki. En fólk þarf að vita hvers vegna við stofnuðum Alþýðufylkinguna. Það var vegna þess að VG voru (og eru) rúin trúverðugleika eftir síðasta kjörtímabil og hafa ekki einu sinni reynt að afsaka sig heldur stefna ótrauð í sama farið. Verði þeim að góðu sem kýs þau.


mbl.is Aukið fylgi Vinstri grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalt mat

Jæja, verum sanngjörn: Það þýðir ekki að neita því, að ESB-aðild væri hagstæð sumum þjóðfélagsöflum hér á landi, þótt hún sé óhagstæð öðrum. Þannig að hægrisinnaður ESB-flokkur á tvímælalaust rétt á sér, jafnvel þótt maður sé sjálfur andvígur ESB-aðild. Þannig að þótt Viðreisn fái aldrei mitt atkvæði, skal ég ekki afneita rökunum fyrir tilveru hennar.

Það er skrítnara þegar fólk sem kennir sjálft sig við vinstri, segist "telja hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins" en styður samt upp til hópa áframhaldandi aðildarferli. Styður, með öðrum orðum, það sem það segist telja að sé landinu ekki fyrir bestu. Greiðir jafnvel atkvæði með því á þingi 2009. Sýndu mér trú þína af verkum þínum, stendur skrifað. Hvað á eiginlega að kalla þetta?

Jæja, eitt er að gera málamiðlanir og skýra þær með því að þær séu málamiðlanir. En þegar málamiðlunin verður ný stefna -- hvað á eiginlega að kalla það? Hvers vegna þurfa VG að tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB núna, þegar þau eru ekki einu sinni í ríkisstjórn?

(Svar: Vegna þess að annars þyrftu þau að viðurkenna þau algjöru svik sín sem fólust í ESB-umsókninni.)

Vinstrisinnað fólk sem vill ekki meira flóð markaðsvæðingar frá ESB á einn valkost í komandi kosningum. Það er Alþýðufylkingin. Þegar við segjumst vera fortakslausir ESB-andstæðingar, þýðir það að við mundum aldrei styðja eða samþykkja frekari aðlögun að ESB. Og "aldrei" er ekki afstætt hugtak.


mbl.is „Útverðir vestrænnar samvinnu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fá" að byggja?

Er verið að hugsa um hvort eigi að leyfa eða banna byggingar kirkna og annarra trúarbygginga? Er einhver að meina það? Það á að sjálfsögðu að leyfa fólki að byggja þær. Annað væri tæpast samrýmanlegt trúfrelsi. (Viljum við ekki annars hafa það í landinu?) Það er annað mál með að gefa trúfélögum lóðir og undanskilja þau gatnagerðargjöldum og fasteignagjöldum og slíku. Þar á jafnræðisreglan að gilda: Það ætti ekkert trúfélag eða lífsskoðunarfélag að fá neitt svona gefins frá ríki eða sveitarfélögum. En á meðan sumir fá, þá verður líka að gæta jafnræðis.


mbl.is Skiptar skoðanir um trúarbyggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunun

Framboðum til Alþingis í haust er ítrekað mismunað við fundahöld og í fjölmiðlum. Það er mismunandi hvar geðþóttamörkin eru dregin, við 3% eða við 5% í skoðanakönnunum eða við framboð um allt land. Auðvitað eiga allir að sitja við sama borð. Mismununin er ólýðræðisleg. Hún styrkir þá stærstu en veikir þá minnstu.


mbl.is Í beinni: Hver bakar þjóðarkökuna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austur-Þjóðverjar í síðari heimsstyrjöld??

Aust­ur-Þjóðverj­ar hönnuðu skipið í síðari heims­styrj­öld­inni og fjölda­fram­leiddu, en Ópal var byggð árið 1951.

 

 

..ha??


mbl.is Skúta sem á hvergi heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumhvörf í íslenskri vinstristefnu

Alþýðufylkingin er komin inn á kortið sem raunhæfur valkostur, sem ekki er hægt að líta framhjá nema með einbeittum vilja. Hér er kominn flokkur sem annars vegar er til vinstri án þess að skammast sín fyrir það, og hins vegar meinar það sem hann segir. Þegar við segjum að við viljum ekki ganga í ESB, meinum við ekki að við "teljum hagsmunum okkar betur borgið" utan þess, heldur meinum við að við erum fortakslausir andstæðingar ESB-aðildar og munum beita okkur gegn henni af alefli.

Við erum líka með raunhæfa stefnu sem er ekki í þversögn við sjálfa sig heldur í rökrænu innra samhengi. Sjálf stefnuskráin okkar er stutta útgáfan. Og fyrir þá sem vilja vita nánar hvað við meinum og hvernig við ætlum að fara að þessu, er kosningastefnuskráin: 4 ára áætlun Alþýðufylkingarinnar 2016-2020, mun ítarlegra plagg, sem skýrir það rækilega.

Alþýðufylkingin veit hvað hún vill, veit hvert hún stefnir og hún veit hvaða krafta þarf til að framkvæma stefnuna: Það eru kraftar fjöldabaráttunnar, samtakakraftur fólksins í landinu. Við segjum ykkur ekki að við munum gera þetta allt fyrir ykkur bara ef við komumst inn á þing. Nei: Fólkið í landinu þarf að taka slaginn. Við verðum í þeim slag, hvort sem við verðum innan eða utan Alþingis.


mbl.is Guðmundur leiðir í Suðvestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt dagsins: Framboð AF í Suðurkjördæmi

Það er saga til næsta bæjar, að Alþýðufylkingin býður fram í fimm kjördæmum í haust. Sjáið listann hér:

Alþýðufylkingin býður fram í Suðurkjördæmi!


Til hamingju með afmælið

Mér finnst næstum því að það ætti að friða fyrirtæki sem eru orðin 100 ára, eins og hús.

Þannig ættu Thorvaldsensbasar, Eymundsson og Bernhöftsbakarí að vera friðuð. Bannað að hætta. Og það hefði átt að koma í veg fyrir að Vísir á Laugavegi legði upp laupana. Mest sé ég þó eftir Reykjavíkurapóteki, sem var u.þ.b. 200 ára þegar því var lokað. Það var ruddaskapur.


mbl.is Jóhann Ólafsson 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflytjendavandamál?

Það eru auðvitað ákveðin vandamál sem þarf að leysa, en þau eru fæst innflytjendum sjálfum að kenna. Stórt vandamál er brottfall barna innflytjenda úr skólum. Það stuðlar að því að innflytjendur verði sem slíkir ný undirstétt. Skólakerfið þarf að þjóna öllum - það eru hagsmunir allra að börn með annað móðurmál en íslensku fái að njóta þess en séu ekki látin gjalda þess. Það á að vera einstaklingnum og samfélaginu öllu styrkleiki, en ekki veikleiki.

Lög um keðjuábyrgð eru mjög mikilvægt réttindamál á vinnumarkaði. Og þótt innflytjendur og farandverkafólk fái kannski meiri réttarbót af þeim, eru það samt hagsmunir samfélagsins alls að það sé ekki hægt að níðast á fólki sem á undir högg að sækja, t.d. vegna tungumálaerfiðleika eða erlends ríkisfangs. Ef það er hægt, skapar það félagsleg undirboð sem grafa undan kaupum og kjörum allra. Það sem við skömmtum öðrum verður á endanum líka skammtað okkur.

Það á að stofna þjónustustofnun þar sem aðflutt fólk hefur bakhjarl, sama hvort það er innflytjendur, flóttamenn eða farandverkafólk -- stofnun sem þjónustar fólk, sér því fyrir túlkaþjónustu og íslenskukennslu og fylgir því eftir að allir þekki réttindi sín og skyldur sínar.

Ef allir eiga að njóta góðra lífskjara, þurfa nefnilega allir að njóta góðra lífskjara.


mbl.is Snýst um fólk ekki vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun hjá þeim

Það er ekki hægt að neita því, að þeir hafa rétt fyrir sér, þessir herramenn, sem kalla forystu Íslensku þjóðfylkingarinnar öllum illum nöfnum. Og ef aðrir í forystu flokksins kalla tvímenningana öllum illum nöfnum á móti, má segja að hvorir hafi nokkuð til síns máls. Þannig að verði þeim bara að góðu.

Það er auk þess hárrétt ákvörðun hjá Gústaf og Gunnlaugi að gera þetta á þessum tímapunkti, ef það skyldi verða til þess að ónýta framboð þessa flokks, sem hefur enga sérstöðu meðal flokka aðra en mannfyrirlitninguna, og á ekkert erindi í íslensk stjórnmál nema þá með neikvæðum formerkjum.

Klofningur þessi er kærkomin viðbót við aðrar fréttir af kosningabaráttunni.


mbl.is Draga framboð sín til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska þjóðfylkingin afneitar hlýnun af mannavöldum

Á Rás2 í gærkvöldi mættust oddvitað allra framboðanna í Reykjavíkurkjördæmi norður í útvarpssal. Ég var talsmaður Alþýðufylkingarinnar. Harla ánægður með þáttinn.

Eftirtekt vakti -- já, hlátur í salnum -- að talsmaður Íslensku þjóðfylkingarinnar sagðist ekki trúa því að hlýnun jarðar væri af mannavöldum heldur væri hún einhvers konar samsæri runnið undan rifjum vinstriróttækra vísindamanna.

Þetta er skondin viðbót við útlendingaandúðina og hómófóbíuna! Nú spyr maður sig, hvað næst? Afneitar Íslenska þjóðfylkingin líka þróunarkenningunni?


...og nú kemur á mig hali...

Mér datt nú ónefndur frv. forsætisráðherra og frv. formaður Framsóknarflokksins í hug þegar ég sá fyrirsögnina. Og svo komu mér í hug línurnar úr Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum:

...og nú fær ég nóga dali,
og nú kemur á mig hali, og tralla lalla la!
og nú kemur á mrg hali, og tralla lalla la!


mbl.is Hali óx út úr baki unglings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert fær að vera í friði

Ætli það sitji ekki einhver innvígður með stimpilinn góða í hendinni, að stimpla kjörseðla til að undirbúa "kosningasigur" Framsóknar í haust?


mbl.is Stimpli Framsóknar stolið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggert er víst framsóknar

Þegar Eggert Skúlason tók við sem ritstjóri DV höfðu margir uppi háværa gagnrýni um að hann væri tengdur Framsóknarflokknum. Hann kvað það af og frá. Núna er hann kosningastjóri Framsóknar. Ætli einhver sé sérlega undrandi?


mbl.is Eggert Skúlason til Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2,2%

Stóra fréttin í þessari frétt, sem þó er ekki valin í fyrirsögn, er að Alþýðufylkingin sækir heldur betur í sig veðrið, sem kemur heim og saman við tilfinningu okkar sem þar stöndum í brúnni. Alþýðufylkingin er komin á kortið svo ekki verður framhjá litið. Nú er bara að bæta enn um betur. Þessi mikla fylgisaukning hleypir okkur kappi í kinn og getur brotið ísinn af tiltrú fólks á því að við náum inn á þing.

Það er ekki úr vegi að benda hér á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar.


mbl.is BF kæmi mönnum á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband