Prinsipp VG

VG: Það er prinsippmál að vita hverjir það eru sem kaupa Arion-banka.

Hér er prinsippmál: Það á ekki að selja bankana til gróðadrifinna aurasálna heldur á að félagsvæða þá. Það á svo að reka þá með það markmið að veita fólkinu í landinu hagstæða fjármálaþjónustu - með það markmið og ekki með neitt annað markmið.

VG segja þetta auðvitað ekki, enda seldi Steingrímur líka banka á sínum tíma. Án neinnar umræðu, ekki einu sinni í flokknum.


mbl.is Krafist upplýsinga um kaupendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverja styðja Ísraelar?

Það skal enginn segja mér að Ísraelar séu hlutlausir í sýrlenska borgarastríðinu. Þeir gera loftárásir á landið og á eina nánustu bandamenn ríkisstjórnarinnar. Með því eru þeir í besta falli óbeint að greiða leiðina fyrir hryðjuverkamenn.


mbl.is Lykilhlutverk Rússa eftir loftárásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Ragnar

Ragnar hefur árum saman gagnrýnt spillingu í verkalýðs- og lífeyrissjóðahreyfingunni og bæði gert það af meiri festu og málefnaleik en flestir. Það er áfangasigur að hann hafi unnið þessa kosningu, nú þarf hann að ganga ganginn.

Til hamingju, Ragnar, og gangi þér vel.


mbl.is Framboðið var vantraust á forystu ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendum þeim múrstein!

Ég hef um árabil afþakkað allan fjöldapóst. Þegar er engu að síður troðið inn um lúguna hjá mér einhverju drasli sem ég kæri mig ekki um, þá tek ég mig stundum til, pakka því inn, fer með það á pósthúsið og sendi það til fyrirtækisins sem sendi það. Og læt viðtakanda greiða burðargjaldið. Ég læt helst fylgja með múrstein eða litla gangstéttarhellu í pakkanum, svona til áherslu.

.......

Ef hundrað manns gerðu þetta við sama fyrirtækið sama daginn. Ætli það mundi ekki hugsa sig tvisvar um, næst þegar það ætlaði að senda fjölpóst?


mbl.is 90% vildu afþakka frípóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bandamanna"?

Hverjir eru "bandamenn" í Sýrlandi? Er verið að tala um bandamenn sýrlensku ríkisstjórnarinnar, Rússa, Írana og Hizbollah? Eða er verið að tala um það sem bandamenn Íslands aðhafast þar, Bandaríkin, Íslamska ríkið á Arabíuskaga og hvers kyns óaldarlýður sem þessi lönd o.fl. hafa á mála?


mbl.is Drápu tengdason Osama bin Laden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó fyrr hefði verið

Í fréttum RÚV eru fréttir jafnan textaðar -- þegar þær eru um heyrnarlausa.

Eins og heyrnarlausir fylgist bara með fréttum um heyrnarlausa.


mbl.is Fjölmiðlaveitur texti allt myndefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elding kl. 12:23?

Sáu fleiri en ég eldingu rétt í þessu?


Smjörklípa

Það er orðinn fastur liður hjá Sjálfstæðisflokknum að taka upp þráðinn við að auka aðgengi að áfengi, þegar hann vill dreifa athyglinni frá óþægilegri umræðuefnum, eins og skýrslu um skattaundanskot eða þvíumlíkt.

Staðreynd: Fyrirkomulagið á áfengissölu íslenska ríkisins er í góðu lagi. Hvert er vandamálið? Þetta er eitt af því fáa sem er ekkert sérstakt vandamál við. Eitt af því fáa sem er bara í góðum farvegi eins og það er.

Það er þreytandi tugga að "það sé ekki hlutverk ríkisins að reka smásölu". Segir hver? Sá sem er annað hvort hugmyndafræðilega forritaður markaðshyggjumaður, sá sem eygir gróða fyrir sig eða vini sína í áfengissmásölu, eða sá sem vill beina athyglinni frá einhverjum óþægilegri málum.


mbl.is „Æi, elsku Brynjar minn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kvöld: Opinn fundur um verkalýðsráðstefnuna í Mumbai

Frá heimsráðstefnunni í Mumbai gegn stríði, arðráni og óöryggri vinnu sem haldin var 18.-20. nóvember 2016
 
Opinn fundur þar sem kynnt verður nýafstaðin alþjóðaráðstefna í Mumbai á Indlandi. Þar komu saman fulltrúar hundruða verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka frá öllum heimsálfum og ræddu stöðu og horfur verkalýðsbaráttu í heiminum.
Framsögumaður verður Jean Pierre Barrois, sem sat ráðstefnuna, ásamt Pierre Priet. Þeir eru frá franska blaðinu La Tribune des travailleurs (Verkalýðsblaðinu) og Parti ouvrier indépendant démocratique (POID) (Sjálfstæða lýðræðis-verkalýðsflokknum)
Fundurinn verður í MÍR-salnum, Hvefisgötu 105, fimmtudagskvöld 26. janúar og hefst kl. 20:00. Hann fer fram á ensku. Allir velkomnir.
 
Að fundinum standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK

Aleppo fallin

Sýrlenski stjórnarherinn er á síðustu metrunum að taka restina af Aleppo-borg á sitt vald. Þetta hefur vægast sagt verið sársaukafull aðgerð en vandséð hvað annað er hægt að gera þegar hryðjuverkamenn ráða yfir borgarhluta, gráir fyrir járnum. Vestræn pressa fjallar mikið um glæpi sýrlenska hersins gegn mannkyni og ýkir frekar en hitt. Samt er sýrlenski herinn eina aflið sem getur stöðvað Íslamska ríkið. Sorgleg staða, en aðrar stöður væru ennþá sorglegri. Allir kostir vondir.

Á sama tíma hefur Bandaríkjaher notað hvítan fosfór gegn sömu öflum í Mósúl í Írak. Af hverju fjalla íslenskir fjölmiðlar ekki um það?


Halal-pylsur?

Flestar íslenskar pylsur innihalda svínakjöt. Flestir Afganar eru múslimar. Flestir múslimar borða ekki svínakjöt. Og heldur ekki hestakjöt. Þannig að hvað gengur Bjúgnakræki til að senda pylsur til Afganistan?

 

Verra þykir mér samt að sjá þessa hroðvirknislegu vísu, "Bjúgnakrækir lærði seint..." -- í staðinn fyrir að álasa Bjúgnakræki fyrir að vera illa læs og skrifandi, ætti höfundur hennar að fara á námskeið í stuðlum og höfuðstöfum.


mbl.is Pylsur til Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega útlendingar kaupa jarðir?

Einhvern tímann máttu útlendingar ekki kaupa jarðir á Íslandi. Breyttist það einhvern tímann? Eða misminnir mig?


mbl.is Ratcliffe kaupir Grímsstaði á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi staða ... lögbrot?

Það var í gær haft eftir Láru V. Júlíusdóttur lögfræðingi að grunnskólakennarar hefðu líkast til brotið lög með því að ganga út í gær. Næsta spurning hlýtur að vera: Og hvað með það? Hvað ætlar sveitarfélögin að gera í því þegar starfsstéttin er að hruni komin, örvæntingarfull og byrjuð að segja upp í massavís -- og auk þess ómissandi?

Sveitarfélögin verða að stórhækka laun grunnskólakennara. Það er svo einfalt. Og þó fyrr hefði verið. Ef námskröfur eru stórauknar án þess að laun séu stórhækkuð, hvað heldur fólk að gerist? Kemur það í alvörunni á óvart að hrun blasi við í grunnskólum landsins?

Við hin þurfum að sýna því skilning þótt grunnskólakennarar neyðist til að grípa til óyndisúrræða í kjarabaráttunni. Meira en skilning, við þurfum að sýna þeim samstöðu. Það er hagur allra að grunnskólakennarar séu vel haldnir og að það sé eftirsótt að vera grunnskólakennari.

Við eigum hins vegar ekki að sýna því skilning ef sveitarfélögin ríghalda í sultarólina á þeim. Ábyrgð þeirra er mikil, sem standa í brúnni og stranda grunnskólakerfinu í landinu.


mbl.is Þrjátíu kennarar segja upp störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju

Ég tilkynni stoltur að DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju hefur verið samþykkt og skráð hjá yfirvöldum sem lífsskoðunarfélag. Það þýðir að fólk sem aðhyllist díalektíska  efnishyggju á sitt eigið félag, sinn eigin vettvang, til að ræða og stunda lífsskoðun sína og framkvæma sínar eigin athafnir og til að taka við sínum eigin sóknargjöldum og ráðstafa þeim í samræmi við sína eigin lífsskoðun.

Ef þú aðhyllist díalektíska efnishyggju hvet ég þig til að skrá þig strax í félagið. Langeinfaldasta leiðin til þess er að fara á Ísland.is, skrá sig þar inn með kennitölu og íslykli, fara í "trúfélagsskráningu" og velja þar af lista: "Díamat". Það þarf ekki að taka meira en mínútu og þá eruð þið skráð hjá Þjóðskrá í flottasta lífsskoðunarfélagið.

 


Að loknum kosningum

 
Yfirlýsing frá Þorvaldi Þorvaldssyni, trésmið og formanni Alþýðufylkingarinnar:

Að loknum kosningum


Hafið það

Viðræður snúast um það hversu hratt landið lagar sig að regluverki ESB. Eins og Heimssýn hefur sagt í mörg ár. Samt rembast ESB-sinnuleysingjar við að þykjast ekki skilja þetta og tala bara um að það þurfi "bara" að halda þjóðaratkvæði. ESB stöðvaði viðræðurnar við Ísland þegar steytti á fyrirvörum Alþingis. Fyrirvarar eru ekki til umræðu. Ef viðræðurnar eiga að halda áfram, þarf að fella fyrirvarana niður. Sækja um aðild án fyrirvara. Þjóðaratkvæðið ætti því að vera um hvort eigi að sækja um ESB-aðild án fyrirvara, eða hvort eigi ekki að gera það. Það er eina marktæka spurningin. Og augljóslega er það krafa um skref í átt til ESB-aðildar, að krefjast þess. Það er engin þriðja leið, annað hvort vill fólk ganga í ESB eða það vill ekki ganga í ESB.


mbl.is Reglur ESB „óumsemjanlegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna eigið þið að kjósa Alþýðufylkinguna

Alþýðufylkingin boðar jöfnuð og félagslegt réttlæti, fullveldi og velferð og hefur skýra sýn á hvernig þessum markmiðum verði náð: Með félagsvæðingu. Með því að félagsvæða fjármálakerfið (banka, lífeyrissjóði og tryggingafélög) og reka það sem samfélagslega þjónustu en ekki í gróðaskyni, getum við sem samfélag sleppt því að borga nokkur hundruð milljarða á ári í vexti. Og með því að félagsvæða aðra innviði samfélagsins, þannig að enginn geti makað krókinn með dýrum einkarekstri sem ríkið borgar að mestu fyrir, getum við nýtt peningana betur í velferð, í heilbrigðisþjónustu, í sjálf markmiðin með innviðunum.

En þetta er ekki allt: Þessi markmið munu því aðeins nást, að fólkið í landinu berjist fyrir þeim með virkum hætti. Við verðum í þeirri baráttu, hvort sem við verðum innan eða utan Alþingis. Við eigum ekki að trúa stjórnmálamönnum sem lofa okkur öllu fögru, að gera allt fyrir okkur. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Framfarir kosta baráttu. Þá baráttu boðum við.

Þið eigið ekki bara að kjósa Alþýðufylkinguna, það er góð byrjun en ekki nóg. Þið eigið að ganga til liðs við hana og gera ykkur gildandi í baráttunni fyrir framtíð okkar allra.

Vsteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi pistill hefur áður birst í DV.)


Hverjum treystir þú?

Vinstri-græn hafa undanfarið slegið um sig með spurningunni „Hverjum treystir þú?“ Þetta er eðlileg spurning í aðdraganda kosninga, og fyrst þau gefa þennan bolta upp er best að skoða málið. Og vegna þess að verkið lofar meistarann, þá er marktækast að skoða síðasta kjörtímabil.

Byrjum á húsnæðisstefnunni: Húsnæðisstefna VG var að láta bankana sjá um að útfæra húsnæðisstefnuna, til að geta sjálft þvegið hendur sínar af henni. Í skjóli þess voru gjaldþrota heimili flokkuð: Fólk gat fengið verulegar niðurfellingar ef það gat staðið í skilum með restina. Aðrir voru settir á nauðungaruppboð — á færibandið, eins og það var kallað innan bankanna.

Tökum næst efnahagsstefnuna. VG er ekki með neitt sem er hægt að kalla alvöru efnahagsstefnu. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er það hins vegar. Að forsögn hans var rekin hér harðsvíruð stefna niðurskurðar og markaðsvæðingar í nafni ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við vinstri.

Eigum við að tala um Evrópusambandið? Hvaða ályktanir dregur fólk, þegar sama fólkið hefur það á stefnuskránni að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB“ og greiðir síðan atkvæði með aðildarumsókn? Og þráast enn við að vilja þjóðaratkvæði um eitthvað sem þau segjast sjálf vera á móti?

Einkavæðing bankanna hin síðari. Magma-málið. Olíuleit á Drekasvæðinu. Stóriðja á Bakka. Áform um rafmagnssæstreng. Við þekkjum öll þessa sögu, en við þurfum að muna hana núna þegar við eigum að fara að kjósa aftur.

Ég var í VG mestan hluta síðasta kjörtímabils. Ég barðist á hæl og hnakka gegn öllum þessum málum, innan flokks sem utan, þar til ég sá að það var fullreynt. Eftir meira en þrjú ár af innanflokksátökum sá ég að þetta var tímasóun. Þau mundu aldrei koma með út í uppgjör við fjármálaauðvaldið. Fyrsta varnarlína auðvaldsins var innan flokksins.

Ef ég treysti Vinstri grænum, væri ég þar enn. En reynslan segir mér að sá sem ætlar í slag við auðvaldið hefur ekkert að gera þar. Þess vegna var ég með í að stofna Alþýðufylkinguna. Hún er flokkur sem skilur inntak og gildi félagslegra lausna, vísar leiðina út úr kapítalismanum í stað þess að ætla sér að lappa enn einu sinni upp á hann, og veit hvaða krafta þarf til að koma á nauðsynlegum umbótum. Það eru kraftar stéttabaráttunnar.

Almenningur í landinu þarf að taka virkan þátt í baráttunni frá degi til dags, því hún fer ekki bara fram í kosningum til þings eða á þingi. En hún fer meðal annars fram þar. Alþýðufylkingin er raunhæfur og raunsær valkostur til vinstri sem leitar ekki friðkaupa við fjármálaauðvaldið, sem grætur ekki kreppuna heldur safnar liði. Verið með. Kjósið okkur núna, en takið líka slaginn eftir kosningarnar.

(Áður birt hér og hér.)


Látið eins og Alþýðufylkingin sé ekki til

Það er ódýrt, að gera úttekt á stefnu stjórnmálaflokkanna og sleppa stórum hluta framboðanna úr úttektinni.

Það er hægt að vera með lélega umhverfisstefnu. Það er hægt að vera með frábæra umhverfisstefnu en nota hana bara til að slá ryki í augu kjósenda. Og svo er hægt að hafa frábæra umhverfisstefnu sem er í rökrænu samhengi við efnahagsstefnuna.

Vinstri-græn hafa t.d. mjög glæsilega umhverfisstefnu. En á síðasta kjörtímabili -- Bakki, Drekasvæðið, rafmangssæstrengur ... munið þið? Munið þið eftir þessu? Þegar á reyndi, þá var ekki hald í umhverfisstefnunni fínu. Ekki frekar en í neinu öðru í opinberri stefnuskrá VG.

Hvernig er enda hægt að taka alvarlega æðislega fína umhverfisstefnu, þegar efnahagsstefnan snýst um hagvöxt? Haxvaxtarkrafan er helsta ógnin við umhverfið, vegna þess að því minna sem er skeytt um umhverfið, þess meiri er hægt að hafa hagvöxtinn. Góð umgengni kostar.

Alþýðufylkingin boðar ekki hagvöxt. Hún boðar jöfnuð. Hún boðar aukið vægi hins félagslega í samfélaginu, á kostnað markaðarins. Það þýðir að stærri hluti af ákvörðunum í þjóðfélaginu sé tekinn á félagslegum forsendum en ekki af sérhagsmunaöflum.

Sjötti kafli kosningastefnuskrár Alþýðufylkingarinnar, Fjögurra ára áætlunarinnar, er um umhverfismál. Hér er hluti af honum:

Umhverfismálin eru brýnustu úrlausnarefni samtímans. Vistkerfum jarðarinnar er ógnað í sífellt vaxandi mæli úr öllum áttum þannig að lífsskilyrði á jörðinni eru í mikilli hættu.

Vandamálin birtast m.a. í rányrkju á auðlindum, auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og súrnun sjávar, þynningu ósonlagsins og mikilli uppsöfnun þrávirkra úrgangsefna sem komið er fyrir í mörgum af fátækustu löndum heims. Helstu orsakir umhverfisvandans stafa af sókn auðstéttarinnar eftir hámarksgróða. Með því að auka framleiðslu stöðugt er gengið hratt á auðlindir jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða. Víða er stór hluti framleiðslu og flutninga knúinn áfram með jarðefnaeldsneyti, sem hefur undanfarnar tvær aldir safnað svo miklu af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið að hlýnun jarðar er komin að bráðum hættumörkum.

Með alþjóðavæðingu auðmagnsins er framleiðsla flutt heimshorna á milli eftir því hvar vinnuaflið er ódýrast og umhverfisvernd er minnst. Þetta kostar mikla flutninga með hráefni og síðar með vörur á markað. Einnig hefur þetta í för með sér að samfélag sem verður háð viðkomandi starfsemi hefur tilhneigingu til að slaka á kröfum í umhverfismálum til að missa ekki frá sér störf. Eins er umhverfisverndarsinnum oft stillt upp frammi fyrir spurningunni hvort þeir vilji stuðla að atvinnuleysi og á hverjum það bitni.

Ráðandi stéttir reyna að stilla upp umhverfismálunum þannig að lausn þeirra sé einstaklingsbundin og ráðist af hugkvæmni og samvisku hvers og eins við sorpflokkun o.fl. Einnig reyna þær að auka forréttindi sín með því að binda rétt til mengunar við kvóta sem gengur kaupum og sölum. Þannig reynir auðstéttin að kaupa sig frá vandanum sem þó heldur áfram að aukast.

Öll helstu umhverfisvandamál og ógnanir við vistkerfi heimsins eiga sér frumorsök í eðli og hagsmunum auðstéttarinnar og kröfu hennar um sífelldan hagvöxt og hámarksgróða. Aukin velta í hagkerfinu knýr fram aukna ásókn í auðlindir og orkunotkun til að byggja undir hagvöxtinn. Þetta er tilfellið þó svo að offramleiðsla hafi verið á heimsvísu undanfarna áratugi. Lausnir umhverfisvandamálanna verða að byggjast á samfélagslegum lausnum og ákvörðunum, bæði pólitískum og tæknilegum, sem ekki stjórnast af gróðamöguleikum auðmanna.

Til að stemma stigu við aðsteðjandi umhverfisvanda er nauðsynlegt að losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis. Þegar fjármálakerfið verður rekið á félagslegum grunni án þess að soga til sín öll verðmæti úr hagkerfinu verður svigrúm til að auka fjölbreytni í atvinnu og verðmætasköpun, sem þá þarf ekki að standa undir himinháum fjármagnskostnaði. Þannig minnkar þörfin fyrir orkufreka flutninga með vörur heimshorna á milli.

Framleiðsla miðast meira við þarfir fólksins en ekki þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar til að ávaxta aukinn gróða.

Þetta er lykillinn að því að vinda ofan af umhverfisógninni og koma á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Vaxandi hreyfing í samfélaginu tekur umhverfismálin alvarlega og vinnur ötult starf til lausnar á þeim. Til að auka árangur þess og til að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi innan umhverfishreyfingarinnar á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.


mbl.is Hver er stefnan um framtíð jarðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið að marka þessa mælingu

Ókei, ég vil ekki vera leiðinlegur við fólk sem er að vinna sjálfboðavinnu fyrir göfugan málstað, en ég verð samt að segja þetta: Umhverfissinnaðir kjósendur ættu ekki að fara eftir þessari mælingu þegar þeir gera upp hug sinn.

Ég ætla að láta duga að fjalla um skor Vinstri-grænna hér. Jafnvel hin fjálglegasta umhverfisstefna verður ómarktæk í höndum flokks sem er ómarktækur. Eða hvað kallar fólk það að tala fyrir umhverfisvernd út um annað munnvikið, en um hagvöxt út um hitt? Krafan um hagvöxt er ein stærsta ógnin við umhverfið - því hagvöxtur verður mestur þegar menn skeyta minnst um mengun og rányrkju. Og til hvers? Til að geta staðið undir arðgreiðslum til hluthafa og vaxtagreiðslum til lánardrottna.

Olíuleit á Drekasvæðinu er stórmál og VG sleppa ekkert undan því að hafa hleypt því dýri út úr búrinu. En það er fleira. Man einhver eftir stóriðjunni á Bakka, í kjördæmi Steingríms Joð? Man einhver eftir evrumerkjunum í augum Steingríms Joð, þegar hann talaði fyrir rafmagnssæstreng til Skotlands? Þið áttið ykkur á því hvað sæstrengur gerir. Hann hækkar verðið á innanlandsmarkaði upp á sama plan og á meginlandinu. Þar sem það er víða fimmfalt hærra en hér. Hærra verð = meiri gróði af seldu rafmagni = mun meiri þrýstingur á að virkja meira! - Þótt ekki sé nema til þess að borga sjálfan strenginn!

Umhverfisstefna Vinstri-grænna er mikið plagg og vel unnið. Það er synd að þau noti það ekki til annars en að slá ryki í augu kjósenda. Látið ekki plata ykkur með eftirlíkingum, kjósið frekar Alþýðufylkinguna.


mbl.is Ekki að skoða gamla flokkapólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband