Alþýðufylkingin komin til að vera

Það liggur í augum uppi, þegar maður lítur yfir svið íslenskra stjórnmála, að þar er "gamli" vinstriarmurinn í kaldakoli. Ástæður þess eru ýmsar, og ótrúverðug málefnastaða er sú fyrsta sem kemur upp í hugann. Það sást t.a.m. vel á síðasta kjörtímabili, þar sem ekki bara var stjórnað í þágu auðvaldsins heldur í leiðinni komið óorði á vinstristefnuna. Það var ómaklegt, enda ekki vinstristefna sem sú ríkisstjórn rak, þótt hún hafi að vísu kallað sig það. En það er ekki nóg að kalla sig vinstri ef stjórnarstefnan er það ekki.

Hvað um það, fyrir þremur og hálfu ári tókum við nokkur af skarið og stofnuðum Alþýðufylkinguna. Hún er ekki stór, en akarn er heldur ekki stórt og verður þó að eikartré ef það fær skilyrði til að vaxa. Alþýðufylkingin er vaxandi og þótt við takmörkum starf okkar ekkert við framboð til þing og sveitarstjórna, þá er framboð auðvitað veigamikill þáttur í starfi flokks. Lesið stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar, hún er stutt, skýr og sjálfri sér samkvæm. Ef ykkur líst á hana, takið þá frá miðvikukvöld í næstu viku. Fundurinn hefst kl. 20.


mbl.is Alþýðufylkingin býður fram lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2016 er komið á vefinn.


Til athugunar við ESB-umsóknina sem aldrei skyldi verið hafa

Jón Bjarnason, frv. ráðherra og núv. formaður Heimssýnar, skrifar um feril ESB-umsóknarinnar og lærdóma sem ber að draga af henni, lesið:

Að tala digurbarkalega eftirá


1. maí-ræða Björgvins

Björgvin R. Leifsson flutti ræðu á baráttufundi Stefnu á Akureyri á fyrsta maí. Alveg hreint helvíti fína ræðu. Lesið hana hér:

Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016

 

 

 

 

 


Munurinn á konungi og forseta

Að þetta vald eins manns sé arfleifð frá konungdæminu er rétt hjá Helga, svo langt sem það nær, en það er augljós grundvallarmunur: Forsetinn er kosinn. Meira að segja í beinni kosningu. Hann er þess vegna handhafi umboðs frá fólkinu, sem konungur getur aldrei orðið.

Það mætti ýmsu breyta við forsetaembættið og engin leið hin eina rétta. Það er samt enginn verulegur galli á embættinu sem slíku í stjórnsýslu landsins. Ef mönnum er í nöp við Ólaf Ragnar, þá er við íslenska kjósendur að sakast.

Persónulega fyndist mér eðlilegast að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt og aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þingræði styrkir ekki þingið, heldur veikir það gagnvart framkvæmdarvaldinu.


mbl.is Helgi Hrafn: Vill breytt hlutverk forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauður fyrsti maí

Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!

Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.

Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!

Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.


Víkurkirkjugarður og hótelin

Það er verið að breyta Landssímahúsinu í enn eitt helvítis hótelið. Nú er fyrir slíkur sægur hótela að helmingur þeirra mun fara á hausinn næst þegar kemur kreppa í löndunum sem ferðamennirnir koma frá. Þetta mun ekki endast -- það er vitað, þótt uppbygging skyndigróðans haldi áfram eins og enginn sé morgundagurinn -- bókstaflega.

En Landssímahúsið er spes. Vegna Víkurkirkjugarðs. Grein Þóris Stephensen í Fréttablaðinu í gær var þörf og vel hægt að taka undir flest í henni, eða kannski allt.

Táknrænt séð, þá er greinilega verið að fara yfir einhver mörk, einhver tilfinningaleg mörk, þegar bein forfeðranna fá ekki einu sinni að liggja í friði fyrir hótelfarsóttinni. Hvar er okkar heima, ef ekki þar sem bein forfeðra okkar eru grafin?

En burtséð frá því táknræna, þá er þarna verið að raska sögulegri og menningarlegri sameign okkar. Það er ekki gert í sátt við fólkið. Það er ekki gert af góðum ástæðum eða í smekklegum tilgangi, heldur er tilgangurinn að byggja enn eitt óþurftarhótelið.

Auðvitað á að breyta um stefnu. Það er auðvelt að gera Fógetagarðinn/Víkurkirkjugarð að stað þar sem fólk getur notið sögu og menningar, fortíðar og samtíðar. Ef einhver stjórnmálamaður hefur í sér döngun til þess. Döngun til þess að segja að nú sé komið nóg, einhvers staðar verði þessu að linna, ferðamenn séu fínir en við hin ætlum samt að halda áfram að búa í þessu landi og fá að ráða því, að það verði hægt.


Túristabóla

Við erum í miðri bólu ferðamennsku. Hún mun taka endi, eins og allar bólur.

Íslendingar hafa farið í gegn um nógu margar bólur til þess að við eigum að vita það.

Hvað á að gera? Láta reka á reiðanum á meðan peningarnir streyma inn? Á bara að njóta þess meðan það endist?

Því þarf svo að halda til haga að það njóta þessa alls ekki allir meðan það endist. Hækkandi húsnæðisverð þýðir að sumir þurfa að skuldsetja sig miklu meira en þeir ella þyrftu. Aðrir þurfa að borga miklu hærri leigu en gæti verið. Loks eru þeir sem hafa ekki efni á því og þurfa að flytja burt. Ég talaði við eina um daginn sem er flutt til Þorlákshafnar þótt allt hennar líf fari fram hér í Reykjavík. Hún hafði ekki efni á húsnæði nær.

Við vitum það, að þetta mun hrynja. Hver á þá að sofa á öllum þessum hótelum? Það þarf að gera ráðstafanir. Það þarf að gera þær strax. Hefði reyndar mátt gerast fyrir löngu. Nema einhvern langi til að næsta hrun verði sem verst.

Það er ekki nóg að njóta góða veðursins á sumrin. Það þarf líka að afla til vetrarins.


mbl.is Lundarnir að taka yfir borgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erkiflokkur spillingarinnar

Það er þarft að fá hér enn eina áminninguna um það, skömmu fyrir kosingar, hvað Framsóknarflokkurinn er spilltur. Að hann hefur ekki annan sýnilegan tilgang en að koma sínu eigin fólki á spena hjá ríkinu eða skammta því bestu bitana úr ríkisbúrinu.

Er þessi flokkur séríslenskt fyrirbæri eða þrífast svona gróteskir spillingarflokkar víðar í þeim heimshluta sem kennir sjálfan sig stundum við siðmenninguna?

Hvenær kemur sú kosning, að íslenskir kjósendur þurrki Framsókn út?

(Einhvers staðar verða samt vondir að vera, gæti einhver sagt. Er kannski öruggara að einangra þá í þessum flokki heldur en að tvístra þeim?)


mbl.is Finnur í Panama-skjölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþing um marxisma mið. 27/4

Ég vek athygli á þessu málþingi Rauðs vettvangs nk. miðvikudag (27/4):

Kienthal 1916 - Reykjavík 2016
-- Verkefni marxista á vorum dögum
 
Málþing Rauðs vettvangs, haldið í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá Kienthal-ráðstefnunni, þar sem kommúnistar gerðu upp við meðvirkni sósíaldemókratahreyfingarinnar.
 
Framsögumenn:
Árni Daníel Júlíusson: „Útsýnið til kommúnismans. Er þokunni að létta?“
Sólveig Anna Jónsdóttir: „Hvað þýðir hægri og vinstri í dag?“
Þorvaldur Þorvaldsson: „Lærdómar frá Kienthal“
 
Heitt á könnunni -- allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
 
Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87.
Stund: Miðvikukvöldið 27. apríl kl. 20:00.

Sveinn Óskar um lágskattasvæði og síðustu ríkisstjórn

Sveinn Óskar Sigurðsson skrifar: Lágskattasvæði samþykkt af Alþingi í mars 2013.

Hér mælir ráðherra Samfylkingarinnar fyrir því að svartur listi yfir lágskattasvæði verði ekki lengur birtur almenningi. Hvers vegna má það vera að ráðherra Samfylkingarinnar geri slíkt? Dæmi hver fyrir sig.

 

Þetta er athyglisverð grein. Getur verið að kratastjórnin 2009-2013 hafi bara sett þessi lög án þess að hugsa út í afleiðingarnar? Getur einhver bent mér á góða grein þar sem Sveini Óskari er svarað?

(Talandi um það, kjósið frekar Alþýðufylkinguna í haust. Og ef þið verðið á Egilsstöðum eða í nágrenni á miðvikukvöldið kemur, kíkið þá á kynningarfund Alþýðufylkingarinnar þá!)


Samstaða - um hvað?

Þorvaldur Þorvaldsson svarar grein Ögmundar Jónassonar,

Þetta er ekki „eitthvað sem misfórst“. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu.

Lesið greinina: 

Samstaða – um hvað?


Panamaskjöl og samsæri

Egill Helgason bloggaði í gær um samsæriskenningar um Panamaskjölin. Hann tekur ekki beint afstöðu til þeirra sjálfur, en sumir sem skrifa athugasemdir tala um þær eins og þær séu hreinræktað kjaftæði. Bara eins og bandaríska leyniþjónustan eða öfl henni tengd mundu aldrei taka þátt í einhverju svona endemi. Og ef Rússar andmæla og koma með aðrar skýringar en vestræn hagsmunaöfl -- þá er það áróður Rússa -- en eins og samsæri, þá mundu hetjur frelsisins aldrei nota áróður. Áróður og samsæri -- það er eitthvað sem hinir nota bara. Ekki við. Ekki fólk eins og við. 

Þórarinn Hjartarson skrifar athyglisverða grein um Panamaskjölin á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar. Kíkið á hana:

Panamasprengjan. Til hvers?


Díalektísk messa á sunnudag

Lífsskoðunarfélagið DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju heldur opna díalektíska messu næstkomandi sunnudag: 10. apríl, klukkan 11:00. Hún verður haldin í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Díalektísk messa fer fram líkt og málfundur: hefst með framsögu og svo taka við almennar umræður sem hafa þann tilgang að allir viðstaddir skilji viðfangsefnið aðeins betur.

Framsögumaður á sunnudaginn verður Þorvaldur Þorvaldsson og umfjöllunarefnið: Hugmyndaþróun og sambúð ólíkra lífsskoðana.Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgengi fyrir fatlaða er ekki auðvelt en þó mögulegt.

DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju er veraldlegt lífsskoðunarfélag sem stofnað var árið 2015. Það er í umsóknarferli til að verða opinberlega skráð hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag.


Hvar á að byggja upp Landspítala?

Staðsetning nýs spítala er bara eitt bitbeinið af nokkrum í þessu máli. Annað stórmál er það hvernig eigi að fjármagna bygginguna, hvar sem hún verður - aðkoma lífeyrissjóða að henni er alls ekki óumdeild, enda felur hún í sér áframhald á markaðsvæðingarstefnunni sem hefur verið svo umdeild í heilbrigðiskerfinu og víðar. Þá er erfitt að skilja þá þversögn að það eigi að vera til peningar til að byggja og reka nýtt sjúkrahús, á sama tíma og það virðast ekki vera til peningar til þess að reka það gamla með sómasamlegum hætti.

Hringbraut og Vífilsstaðir eru ekki einu möguleikarnir. Það ætti að skoða vandlega hvort Fossvogur væri ekki alveg eins hentugur staður. Þá er landflæmi í kring um hús Landspítalans á Kleppi, þar sem væri hægt að koma mörgu fyrir. Valkostirnir eru fleiri. Einn möguleikinn væri að dreifa þjónustunni að einhverju leyti aftur út í landsbyggðina og nágrannasveitarfélögin.

Það er skrítið hvernig nýr Landspítali virðist nánast lifa sjálfstæðu lífi. Er þetta ákvörðun sem tók sig sjálf? Hverslags rök eru það að eitthvert hönnunarferli sé komið svo langt á veg að ekki verði aftur snúið? - Á meðan er ekki byrjað að byggja (hvað þá búið) er auðvitað aldrei of seint að taka mark á mótrökum eða að hlusta á betri hugmyndir.

Alþýðufylkingin gerir dálitla grein fyrir afstöðu sinni í ályktun um heilbrigðismál, sem landsfundur í nóvember 2015 samþykkti.


mbl.is Tóku út skírskotun í nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar eru borgaralegur flokkur

Ég styð ekki Pírata. Best að segja það strax. Já, ég er varaformaður í öðrum stjórnmálaflokki, Alþýðufylkingunni, við ætlum okkur auðvitað stóra hluti - en það er ekki aðalástæðan fyrir því að ég styð ekki Pírata. Aðalástæðan er að þeir eru borgaralegur stjórnmálaflokkur. Undir þessari pönkara-áru þeirra er borgaralegur flokkur sem mun festa meira í sessi heldur en hann mun bylta, ef hann kemst til verulegra áhrifa. Sannið til.

Fyrir helgi skrifaði ég grein þar sem ég rek þetta aðeins nánar. Ég mæli með því að þið lesið hana, hún er satt að segja nokkuð gagnmerk:

Píratar eru borgaralegur flokkur


Kreppa og kratafár

Þorvaldur Þorvaldsson leggur út af bréfi Árna Páls Árnasonar til flokksmanna sinna á dögunum:

Kreppa og kratafár


Sanders verður ekki forseti - veit ekki með Trump

Bernie Sanders verður aldrei forseti Bandaríkjanna. Hann er það vinstrisinnaður að hægri-armur Demókrataflokksins mundi ekki styðja hann í raun og því ætti hann ekki séns gegn frambjóðanda Repúblíkana. Það mætti kalla það synd - Sanders er líklega frambærilegasti kandídatinn, þótt hann sé enginn sósíalisti. Ég held að hann sé George McGovern okkar daga. Loftárása-Hillary mundi hins vegar njóta stuðnings vinstriarms Demókrata og ætti því frekar séns.

Ég veit ekki hvort sama mundi að breyttu breytanda gilda um Donald Trump. Það eru örugglega nógu margir innan Repúblíkanaflokksins sem líst mjög illa á hann til að gera hann stórlega tæpan sem forsetaframbjóðanda.


"Kristin stjórnmálasamtök" endurvarpa lygum

Steindór Sigursteinsson í "Kristnum stjórnmálasamtökum" skrifar færsluna "ISIS-klerkur traðkar ungbarn kristinna foreldra, sem ekki vildu snúast til islamstrúar, til dauða" og hefur þessar "upplýsingar" eftir Gylfa Ægissyni.

Einhver ætti að kynna þessa herramenn fyrir vefsíðu sem heitir Google.com - með hjálp hennar tók það mig bara nokkrar sekúndur að komast að því að þessi "frétt" er uppspuni.

Þessi hálfviti sem virðist vera að misþyrma barni á myndinni er ekki Ísis-klerkur, heldur bangladessíski andatrúarkuklarinn Amzad Fakir, sem var handtekinn fyrir þetta.

Þetta er ekki saga um að Ísis kremji "kristin smábörn" heldur um að "andlæknar" geti verið stórhættulegir.


Lífeyrissjóðir gæta ekki hagsmuna almennings í landinu

SA segja: „Líf­eyr­is­sjóðirn­ir gæta hags­muna al­menn­ings í land­inu“ - nú skal ég ekki efa það, að fólk í SA og fólk sem er á launum hjá lífeyrissjóðum eða öðrum fjármálafyrirtækjum trúi þessu sjálft. En ég held að þessi fullyrðing hljómi hlægilega í eyrum margra, ef ekki flestra annarra.

(Til samanburðar lýsa SA sjálfum sér svona: Samtök atvinnulífsins eru í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra.“ - má ekki líka skilja þetta sem gæta hagsmuna almennings í landinu“?)

 

Staðreynd: Beinir fulltrúar auðvaldsins eiga urmul fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða.
Spurning: Ætli þeir gæti ekki hagsmuna umbjóðenda sinna?

Staðreynd: Lífeyrissjóðirnir hafa tapað gríðarlegu fé í verkefnum sem einhverjir hafa grætt gríðarlega á, og á að kaupa ónýt verðbréf sem einhverjir hafa þá sloppið undan.
Spurning: Er hægt að útskýra það allt með klaufaskap?

Fullyrðing: Uppsöfnunarsjóðir með ávöxtunarkröfu eru ekki bjarghringur heldur myllusteinn fyrir almenning í landinu. Ávöxtunarkrafan þýðir annars vegar brask, þ.e. umsvif sem annað hvort tapa peningum eða græða á okurvöxtum eða arðráni. Hins vegar þýðir hún kröfu um síaukinn hagvöxt, sem getur ekki gengið umm vegna þess að kapítalisminn er ekki eilífðarvél heldur háður eigin tortímingu í formi kreppu. Kreppa kemur nokkrum sinnum á hverri starfsævi og í hvert skipti tapast verulegur hluti uppsöfnunarsjóða.

Þegar maður leggur saman iðgjaldið og peningana sem við borgum í vexti af lífeyrissjóðslánunum - hvað ætli gegnumstreymiskerfi mundi þá kosta í samanburðinum? Það væri áhugavert að vita það.

Og talandi um áhugavert: lesið ályktun Alþýðufylkingarinnar um lífeyrismál. Hún er áhugaverð!


mbl.is Mótmæla aðdróttunum um lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband