Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.1.2015 | 13:42
Alþjóðleg samkeppnisstaða
Ef það á að bera saman alþjóðlega samkeppnisstöðu íslenskra lækna fyrir og eftir þennan samning, þá mætti í leiðinni bera saman alþjóðlega samkeppnisstöðu annarra stétta. Ætli sá samanburður mundi ekki sýna þörf fyrir veglega launahækkun fyrir flest vinnandi fólk í landinu?
![]() |
Bækurnar verði opnaðar upp á gátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2014 | 16:57
Juncker varar við "rangri kosninganiðurstöðu"
Jean-Claude Juncker, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, lýsti því yfir skömmu fyrir jól, að ef Grikkjum tækist ekki að kjósa forseta 29. desember, og þyrftu þá að kjósa nýtt þing, þá ætlaði hann nú ekki að fara að skipta sér af því, en ósköp þætti honum leiðinlegt ef öfgaöfl kæmust til valda. Það er varla hægt að skipta sér meira af kosningunum án þess að hafa afskipti. Þetta gáfnaljós fetar í fótspor margra fleiri hægrisinnaðra gáfnaljósa með því að kalla nasistana í Krysi Avgi og róttæka vinstrimenn einu nafni "öfgaöfl". Þannig tal er ekki bara vúlgar, það atar ekki bara vinstrimenn auri að ósekju, heldur stuðlar það líka að trúverðugleika nasistanna. Þannig að skiljanlega nota hægrimenn þetta bull mikið að þyrla upp ryki og misskilningi.
Juncker er sjálfur engin heybrók, fyrst malaði hann undir fjármálafyrirtækin í mörg, mörg ár þegar hann var forsætisráðherra og fleira í Lúxembúrg og nú er hann verkstjóri þegar Evrópusambandið ætlar að eiga við fjármálafyrirtækin. Eða réttara sagt, þegar fjármálafyrirtækin ætla að eiga við Evrópusambandið. Og þar er nú réttur maður á réttum stað. Alla vega séð frá sjónarhóli fjármálaaflanna.
Vinstriflokkurinn Syriza gæti sótt stórlega fram í kosningunum sem nú verða haldnar. Flokkurinn er jafnvel talinn geta haft ríkisstjórnarsetu innan seilingar. Þeir lofa hvorki byltingu né sósíalisma, en segjast ætla að reyna að binda endi á mannlegar hörmungar af völdum kreppunnar í Grikklandi. Ef þeir fá séns eiga þeir örugglega eftir að verða eitthvað skárri en kratar og hægrimenn sem annars hafa ráðið ríkjum í Aþenu. En veðjið ekki aleigunni á þá nema ykkur langi til að verða fyrir vonbrigðum. Þeir eru því miður bölvaðir tækifærissinnar og eiga t.d. hvorki eftir að gera upp við ESB né evruna.
![]() |
Tókst ekki að kjósa forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2014 | 16:40
Hitt íslamska ríkið
Þegar menn skjálfa á beinunum (og hafa ástæðu til) frammi fyrir þorpurunum í IS, í löndunum sem annars heita Sýrland og Írak, þá gleyma menn stundum að Saúdi-Arabía á sterkt tilkall til þess að kalla sig sama nafni. Eini munurinn er auðvitað að þorpararnir sem ráða Saúdi-Arabíu eiga að heita vinir okkar.
![]() |
Hafa tekið 86 manns af lífi á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2014 | 17:23
"Spekingur um stjórnmál"
Hvað ætli Alexei Korol sé titlaður í upprunalegu fréttinni sem þessi er þýdd eftir? "Spekingur um stjórmál" er skemmtileg tilbreyting við "[ótilgreindir] sérfræðingar segja" eða "það hefur ekki verið staðfest [af hverjum?]".
Ég hnaut um það þegar ég hafði ekki búið lengi hér í Danmörku, að einhver hópur manna - einhvers konar Viðskiptaráð eða einhver hagfræðinganefnd sem ég hef ekki kynnt mér á hverra vegum starfar - er kallaður "økonomiske vismænd". Ég hélt fyrst að það væri uppnefni, svona "nú hefur vitringnum Eyjólfi yfirsést..." en þeir eru alltaf kallaðir þetta, eins og þetta sé titillinn þeirra.
![]() |
Rak forsætisráðherrann og embættismenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2014 | 11:30
Einn turn í stórum Legókastala
Danski herinn er ekki hannaður til þess að verja Danmörku. Varnarmálastefna Danmerkur, ef varnarmálastefnu skyldi kalla, gengur út á að vera með í Nató. Danski herinn er þess vegna hannaður til þess að virka sem hluti af her Nató. Þeir taka þátt í öllu hernaðarbrölti Nató og Kanans, í Afghanistan, Írak o.s.frv. og ætlast að sjálfsögðu til að Nató komi þeim til hjálpar þegar Sovétrikin ráðast á þá, nú eða þá ef Þriðja ríkið kemur aftur.
Núna ætla ríkisstjórnin og þingið að kaupa einar 30 orrustuþotur, feiknalega dýr vopn sem verður beitt gegn hirðingjum og börnum þeirra og búsmala, hinumegin á hnettinum, sem teljast ógn við þjóðaröryggi.
Hægripopúlistar segja stundum að það eigi ekki að eyða peningum í þróunarhjálp ef það er til fátækt í manns eigin landi - eins og þtta tvennt útiloki hvort annað - en sjaldan er því mótmælt að tugmilljörðum á tugmilljarða ofan sé ausið í herinn, þótt velferðarkerfið gæti notað peningana hundrað sinnum eða þúsund sinnum betur.
![]() |
Danski herinn lítill kassi af Lego-kubbum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2014 | 19:32
Hjúkk, nú anda ég léttar
Ég játa að það hvarflaði að mér augnablik, að forsætisráðherra Íslands væri haldinn barnalegum hégóma, sem hann þó hefði vit á að láta fara leynt. Núna sé ég að þetta er allt eðlilegt, og er því hættur við að afþakka fálkaorðuna þegar þar að kemur að ég verði tilnefndur til hennar.
![]() |
Ekki tilkynnt um allar orðuveitingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2014 | 11:46
Julefrokost Landsbankans?
Þegar ég sá þessa fyrirsögn, "Peningar flugu út um allt", hélt ég fyrst að þetta hefði verið skemmtiatriði á litlujólunum hjá Landsbankanum.
![]() |
Peningar flugu út um allt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2014 | 21:54
Safngripur
Sjálfsprottna vopnahléð 1914 var agabrot og hart tekið á því í herjum Bretlands og Þýskalands.
Þessum safngrip förlast að tala fjálglega um frið, höfuð eins herskáasta ríkis okkar daga, sem hefur verið nánast sleitulaust í stríði og vopnuðum yfirgangi í margar aldir og er það enn.
Friður er mögulegur, en kerfið sem Elísabet Englandsdrottning er fulltrúi - já, holdgervingur - fyrir er ein aðal hindrunin í veginum fyrir honum.
![]() |
Sýnir að friður er mögulegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2014 | 20:30
Um að gera að hjálpa Rússum
Það hafa nú aðrir bent á að efnislega mundi Rússa ekki muna um alla okkar þjóðarframleiðslu til eða frá, og áhrif Íslendinga eru ekki slík að við getum t.d. stjórnað verði á heimsmarkaði með olíu eða gas. En ef eitthvað er hægt að gera á að sjálfsögðu að gera það. Óháð því hvort við fáum pening fyrir eður ei. Þetta á að heita vinaþjóð okkar og um þessar mundir sækir heimsvaldastefnan að þeim á mörgum vígstöðvum. Við eigum að minnsta kosti ekki að taka þátt í því að reyna að þjarma að þeim. Ef það eru einhverjir sameiginlegir hagsmunir, þá eru þeir að setja heimsvaldastefnunni skorður. En ég efa reyndar að Ásmundur hafi verið að hugsa um það.
![]() |
Látum aðrar þjóðir um fjandskap við Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2014 | 10:45
Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum
Um leið og ég vil bjóða fólki gleðileg jól og vara það við því að éta yfir sig, vil ég vekja athygli á nýskrifaðri grein minni, á Vísi: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum og á Vantrú: Leyfum ekki frekjum að ræna jólunum.
Með kveðju frá útlöndum, -- Vésteinn