Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Krónunni kennir illur græðari

Það er eðlilegt að taka upp 500 krónu mynt ef svo fer sem horfir. Og þar á eftir 1000 krónu mynt og 50.000 krónu seðil.

Minnsta einingin sem er í umferð hér í Danmörku, þar sem ég er niðurkominn, er fimmtíueyringur. Eða hálfkróna, eins og hann er vanalega kallaður. Hann er ígildi 11 íslenskra króna og það þarf ekki minni einingu.

Að hugsa sér, ég man þegar íslenskir fimmeyringar voru til. Þá var nú gaman að lifa, ha?

Vandamálið við íslensku krónuna er að annarri hverri krónu er stolið af okkur. Því væri hægt að breyta með því að félagsvæða fjármálakerfið. Sjá nánar í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar -- og enn fremur í erindi Þorvaldar Þorvaldssonar: Félagsvæðing fjármálastarfseminnar.


mbl.is 500 krónu mynt í stað seðils
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sessunautar í stafrófsröð

Ef svo ólíklega fer að Íslamska ríkið náið þeim ítökum að önnur lönd fari að viðurkenna það og það komist þá á lista yfir viðurkennd ríki, þá verður Ísland næst á eftir því í stafrófinu, og næst á undan Ísrael. Þá mun ég leggja til að skipt verði um nafn á Íslandi, við gætum kallað okkur Snæland. Yrðum þá mitt á milli Slóveníu og Salómonseyja, sem eru viðkunnalegri sessunautar.

Eina ráðið við IS

Eina ráðið við IS er að sýrlenski herinn brjóti þá á bak aftur. Það verður ekki falleg sjón en allir aðrir kostir eru verri. Vesturveldin eiga að hætta að gera Sýrlandsstjórn erfitt fyrir og styðja hana frekar í hernaðinum gegn þessum ófögnuði.


mbl.is Óttast „sleepers“ Ríkis íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskar í útrýmingarhættu

Ef það eru rök gegn hvalveiðum, að sumar tegundir hvala séu hætt komnar, þá má halda því til haga að sumar tegundir fiska eru líka hætt komnar. Því ættum við að hætta að veiða t.d. þorsk, ef það skyldi verða til þess að bjarga t.d. bláuggatúnfiski. Eða, er þetta ekki sambærilegt?


mbl.is Sáttur við hrefnukjöt frá Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á að gera við þetta Íslamska ríki?

Íslamska ríkið er afkvæmi Vesturveldanna. Loftárásir Bandaríkjamanna og taglhnýtinga þeirra munu ekki brjóta það á bak aftur. Sá sem getur gert það er sýrlenski herinn. Hann þarf frið til þess og stuðning. Maður þarf ekki að elska Assad til að sjá að það er skásta lausnin.


mbl.is 22 ára Frakki meðal böðlanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vænisjúkir raðmorðingjar

Þegar ísraelsk yfirvöld segja "öryggisástæður", þá þýðir það yfirleitt annað hvort að það er geðþótti sem ræður, eða eitthvað annað sem hljómar of illa til að segja það. Ástæðan í tilfelli Gilberts er augljóslega að hann lætur ekki duga að hlynna að særðum, heldur ber líka vitni um það í vestrænum fjölmiðlum hvers vegna ástandið er svona, ber vitni um níðingshátt og grimmd Ísraela.

Um leið berast fréttir af því að ísraelsk yfirvöld ætli aftur að fara að rústa heimilum í hefndarskyni þótt einhverjir embættismenn hafi "dregið árangur þess í efa", eins og Vísir kýs að orða það. Hefndaraðgerðir, með öðrum orðum. Áhrif þeirra er ekki að fæla herskáa Palestínumenn frá því að beita ofbeldi, heldur að reita aðra Palesínumenn enn meira til reiði og framkalla þannig ennþá meira ofbeldi af þeirra hálfu -- sem Ísraelar munu svo nota til að réttlæta fjöldamorð með stórvirkum vinnuvélum næst þegar hægriöfgamenn þurfa að píska upp stuðningsmóðursýki sjálfum sér til handa eða hafa meiri peninga af Bandaríkjunum.

Vandamálið í samskiptum Ísraela og Palestínumanna er í grunninn til ekki flókið. Vandamálið er að Ísraelar halda mestum hluta Palestínu hernumdum, en hafa herkví um afganginn. Fyrir utan þá hluta sem þeir hafa þjóðernishreinsað og innlimað. Skæruhernaður Palestínumanna verður ekki brotinn á bak aftur með hervaldi. Það verður því ekki friður á meðan harðlínuzíonistar (trúar- og þjóðernisöfgamenn) fá að halda ranglæti sínu áfram.


mbl.is Norskum lækni bannað að fara til Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styð það

Stelpan sem vildi heita Eldflaug er kannski ánægð með þetta. Mótrök mannanafnanefndar voru að ekki væri hefð fyrir því að heita eftir farartækjum. Nema reyndar nafnið Vagn, viðurkenndi nefndin, og gleymdi a.m.k. Nökkva og Elliða. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Fullorðið fólk á að fá að ráða því hvað það sjálft heitir.


mbl.is Allir fái að bera ættarnöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóku þeir kast?

Hér er játning: Ég skil ekki af hverju spilling á Íslandi þarf svona oft að snúast um laxveiði. Ég bara skil það ekki. Ég mundi skilja það ef menn nýttu sér aðstæður sínar til að þiggja mútur inn á reikninga í skattaskjólum, en hvað er málið með þessa laxveiði?
mbl.is Umræðan kom Sigmundi á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldeilis frábær hugmynd

Mikið er þetta rosalega góð hugmynd, það mætti auðvitað gera aðra atrennu til að verða alþjóðlegt bankastórveldi, síðast vantaði bara herslumuninn og ef ég man rétt var allt í góðu gengi þangað til Davíð Oddsson eyðilagði allt, eða var það ekki þannig sem Jón Ásgeir Jóhannesson skýrði þetta?

Það má líka dusta rykið af merku riti Hannesar Gissurarsonar, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? Einhver mundi segja að við ættum bara að fara að dæmi Norðmanna og finna gull og olíu, en Hannes vildi einmitt að við gerðum landið að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, ef ég man rétt. Ef ég man rétt voru eyjar eins og Guernsey og Jersey á Ermarsundi fyrirmyndirnar sem hann vildi styðjast við.

Heitir þetta ekki annars að nefna snöru í hengds manns húsi? 


mbl.is Verði alþjóðleg fjármálamiðstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að viðurkenna kosningar

Hvíta húsið á eftir að kalla þessar kosningar ólögmætar og ómarktækar, þar sem landið sé í borgarastríði og ekki hægt að halda kosningar alls staðar.

En það stóð ekki á þeim að viðurkenna úrslit forsetakosninganna í Úkraínu, þótt það land sé líka á barmi borgarastríðs og ekki hægt að halda kosningar alls staðar. Og ekki hikuðu þeir við að viðurkenna glæsisigur glæsimennisins al-Sisi í hinum egypska hluta Lýðveldis araba.

Menn eru samþykktir eða mönnum er hafnað eftir því hvernig þeir snúa gagnvart vestrænum hagsmunum. Menn eru uppnefndir harðlínumenn eða umbótasinnar eftir því hvernig þeir snúa við vestrænum hagsmunum.

Vesturveldin boða hvorki frið, lýðræði, mannréttindi né neitt þannig í austurlöndum. Aðeins hagsmuni. Sjálfra sín. 


mbl.is Assad vann kosningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband