Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Viðtal á Útvarpi Sögu

Það verður viðtal við okkur Jakobínu Ólafsdóttur klukkan tíu á Útvarpi Sögu. Hlustið á það!

Vísukorn

Þessari hnoðaði ég saman á Iðunnarfundi í kvöld:

Þegar ég lít á þjóðarhag
þannig flétta ég óðinn:
Nú skal höggva, nú er lag,
niður með Gjaldeyrissjóðinn!


AGS er innheimtustofnun

Tilgangurinn með veru AGS á Íslandi er ekki að hjálpa íslenskum almenningi með því að bæta þjóðfélagið. Tilgangurinn er að innheimta skuldir, að "ráðleggja" ríkinu um hvernig það eigi að fara að því að bera drápsklyfjarnar. Meðölin: Skera niður útgjöld til félagslegrar þjónustu; opna landið fyrir "erlendri fjárfestingu" alþjóðlegs fjármálaauðvalds; selja eignir hins opinbera, þar með taldar auðlindir. Með öðrum orðum, gefa í í áframhaldandi frjálshyggjustefnu.

"Hugsið ykkur hvað væri gaman," sagði Hannes Hólmsteinn um árið, "ef við gæfum bara í." Þeir sem hafa gaman af að gefa í í frjálshyggjuvæðingunni ættu að vera ánægðir með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.


mbl.is Nota AGS sem vopn gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt að samþykkja IceSave

Það er kominn tími til að taka þetta mál úr farvegum tæknilegra atriða eða þjóðrembu. Aðalatriðið er að það er ekki almennings að borga fyrir afglöp fjármálaauðvaldsins. Og það er ekki félagshyggjumanna að ganga erinda þeirra. Auk þess er vitleysa að þykjast ætla að borga eitthvað sem maður mun aldrei geta borgað, hvort sem maður vill eða ekki. Fjármálaauðvaldið er alþjóðlegt í eðli sínu og það eru fórnarlömb þess einnig. Því er sama um þjóðerni, það hugsar aðeins um eitt: Að græða peninga og það strax.


mbl.is Dýrt að hafna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Eru að missa þolinmæðina“

Ég hef ekki farið dult með gagnrýni mína á stefnu núverandi ríkisstjórnar Íslands í flestum meiriháttar málum. Ég sækist ekki eftir því að hún falli, af þeirri einföldu en augljósu ástæðu að ef hún félli, þá tæki verra við. Nú þykjast forystumenn stjórnarandstöðunnar vera að missa þolinmæðina. Ekkert nýtt þar á ferð, en jæja, hér er þá frétt af mér sjálfum: Ég er að missa þolinmæðina gagnvart stjórnarandstöðunni. Látum Hreyfinguna liggja milli hluta, en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa spilað sína stjórnarandstöðu af svo makalausri tækifærisstefnu að ég get ekki einu sinni hlegið að því. Ímyndar einhver sér að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson muni leysa betur úr vandamálum landsins? Ímyndar einhver sér að þeir muni slíðra niðurskurðarhnífinn? Eða standa fastar í lappirnar gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Það er margt í íslenskum stjórnmálum sem ég get reytt hár mitt yfir. Eitt af því sem ergir mig mest að hvað stjórnarandstaðan er lufsuleg og ótrúverðug. Já, og að Sjálfstæðisflokkurinn skuli sækja í sig veðrið í skoðanakönnunum.

Díses kræst, þetta eru sjálf öflin sem leiddu okkur út í svaðið!

Stöðvum niðurníðslustefnu skipulagsauðvaldsins

Það birtist önnur grein eftir mig á Smugunni í dag: Stöðvum niðurníðslustefnu skipulagsauðvaldsins.

Frítt í strætó!

Það birtist grein eftir mig á Smugunni í dag, lesið hana:

Ég gef kost á mér í forvali VG 6. febrúar

Ég gef kost á mér í forvali VG í Reykjavík, sem fram fer 6. febrúar næstkomandi. Ég er sósíalisti og nokkur aðal áherslumál mín eru að verja þá verst settu fyrir afleiðingum kreppunnar -- ekki síst þá borgarbúa sem eiga við geðræna erfiðleika að stríða, að höggva á samkrull borgarinnar við verktakaauðvaldið sem lætur miðbæinn grotna niður, og að strætó verði gjaldfrjáls fyrir alla.

Til að geta kosið í forvalinu þarf að vera skráður í flokkinn ekki seinna en á miðvikudaginn, 27. janúar, vera orðinn fullra 16 ára og eiga lögheimili í Reykjavík. Það er einföld aðgerð: Maður fer á Vg.is, þar er hnappur hægra megin á síðunni, þar sem stendur "Ganga til liðs við VG" og þið útfyllið það. Það tekur svona eina og hálfa mínútu. Þá eruð þið komin í flokkinn og getið tekið þátt í forvalinu 6. febrúar næstkomandi.

Með von um stuðning.

Fundur í kvöld

Rauður vettvangur heldurmálfund í kvöld, um stöðu og hlutverk
verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni. Fundurinn verður í Friðarhúsi
(Njálsgötu 87) og hefst kl. 20:00. Anna Atladóttir, aðaltrúnaðarmaður
SFR á Landspítala, hefur bæst á mælendaskrá, til viðbótar við Bjarka
Steingrímsson varaformann VR. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA hefur
boðað forföll. Vonumst til að sjá ykkur,

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Vek athygli á þessu:

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Opinn málfundur hjá Rauðum vettvangi
fimmtudaginn 3. desember kl. 20
Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Framsögur flytja:
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Bjarki Steingrímsson, varaformaður VR.

Hvert stefnir verkalýðshreyfingin og hvernig ætti hún að bregðast við
kreppunni?
Hvernig geta félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar beitt henni til að
vinna bug á kreppunni?

Allir eru velkomnir.

Stjórn Rauðs vettvangs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband